Hamfarakaka sem setti Vesturbæinn á hliðina

Kakan leit bara nokkuð vel út þegar búið var að …
Kakan leit bara nokkuð vel út þegar búið var að skreyta hana nógu mikið. ljósmynd/Þóra Sig

Það er fátt skemmti­legra en að baka fal­lega köku en það er ekki alltaf auðvelt. Þess vegna er til kökumix í pökk­um og til­bún­ir botn­ar út í búð. Það er gott að vita af slíku enda oft­ar en ekki sem neyðar­til­felli koma upp (ef kaka fell­ur, mis­heppn­ast eða tím­inn hleyp­ur frá manni).

Mat­reiðslu­bæk­ur geta líka hrein­lega gefið upp rang­ar upp­skrift­ir og þá eru góð ráð dýr en á dög­un­um bakaði und­ir­rituð þessa ágæt­is­köku. Upp­skrift­in er upp úr bók sem heit­ir Naked Ca­kes og er án efa ein fal­leg­asta mat­reiðslu­bók sem sög­ur fara af. Bók­in er í miklu upp­á­haldi og er þetta í þriðja skiptið sem bakað er upp úr henni. Sá bögg­ull hef­ur þó fylgt skammrifi að botn­arn­ir lyft­ast illa enda gríðarlega smjör­mikl­ir og þung­ir. Brugðið var á það ráð í fyrra þegar bakað var fyr­ir stóraf­mæli að baka bara fleiri botna til að ná góðri hæð á kök­urn­ar. Fyr­ir vikið er enn þá verið að tala um kök­urn­ar og hversu góðar og saðsam­ar þær voru.

Vík­ur þá sög­unni af um­ræddri köku sem mynd­in hér að ofan er af.

Ljós­mynd/​Naked Ca­kes

Ákveðið var að baka vanillu­botn upp úr bók­inni og er upp­skrift­in svohljóðandi.

Hamfarakaka sem setti Vesturbæinn á hliðina

Vista Prenta

Vanillukaka úr Naked Ca­kes

  • 180 gr. all-purpose hveiti
  • 1/​2 tsk. lyfti­duft
  • 1/​4 tsk. fínt salt
  • 125 gr. ósaltað smjör við stofu­hita
  • 220 gr. ca­ster syk­ur (mjög fínn syk­ur en ég notaði bara venju­leg­an)
  • 4 egg
  • 1/​2 tsk. vanillu paste eða drop­ar
  • 125 ml mjólk

Aðferð:

  1. Hitið ofn­inn í 170 gráður og smyrjið 20 sm form.
  2. Sigtið hveitið, lyfti­duftið og salt í stóra skál og blandið vel sam­an.
  3. Í hræri­vél skulið þið hræra sam­an smjörið og syk­ur þar til bland­an er orðin létt og loft­kennd. Bætið þá við eggj­ar­auðunum og hrærið vel. Bætið vanill­unni við og blandið vel sam­an. Passið ykk­ur að skafa reglu­lega af hliðunum í skál­inni til að allt bland­ist vel. Hafið hræri­vél­ina stillta á hæg­an hraða og blandið hveiti­blönd­unni ró­lega sam­an við.
  4. Setjið eggja­hvít­urn­ar í skál og stífþeytið. Blandið því næst sam­an við deigið – mjög ró­lega. Notið til þess sleif og passið ykk­ur vel. Eggja­hvít­urn­ar eru til að gera kök­una létt­ari.
  5. Setjið deigið í formið og bakið í 20-30 mín­út­ur eða þar til tann­stöng­ull kem­ur hreinn upp úr kök­unni eft­ir að hafa verið stungið í.
  6. Látið kök­una kólna áður en þið takið hana úr form­inu.

Ég er búin að gera þetta nokkr­um sinn­um núna og þarf alltaf að baka um­tals­vert leng­ur en sagt er til um í upp­skrift­inni auk þess sem botn­arn­ir falla alltaf skelfi­lega hjá mér. Veit ekki af hverju en ég er búin að gabba at­vinnu­bak­ara til að prófa upp­skrift­ina sem mun ger­ast ein­hvern­tím­an á næstu vik­um.

Ljóst var á þess­um tíma­punkti að þrátt fyr­ir að ég hefði bakað tvö­falda upp­skrift þá var þetta ansi þunn­ur þrett­ándi. Nú voru því góð ráð dýr og það skársta sem mér datt í hug var að kaupa svamp­botna úti í búð til að bæta við.

Þá var komið að krem­inu en planið var að gera sítr­ónu­smjörkrem úr bók­inni. Krem sem fær full­orðið fólk til að skæla af unaði.

Hér er upp­skrift­in:

Prenta

Sítr­ónu­smjörkrem úr Naked Ca­kes

  • 175 gr. ósaltað smjör við stofu­hita
  • 270 gr. flór­syk­ur
  • 120 gr. rjóma­ost­ur við stofu­hita
  • 2 msk. fersk­ur sítr­ónusafi
  • 2 msk. nýrif­inn sítr­ónu­börk­ur

Aðferð:

  1. Setjið allt hrá­efnið í hræri­vél og hrærið í 3-5 mín­út­ur eða þar til kremið er orðið létt og loft­mikið.

Hér er komið að mjög stóru og veiga­miklu atriði sem und­ir­rituð hafði ekki hug­mynd um. Sýra splitt­ar smjörfitu. Þetta er víst eitt­hvað sem all­ir kokk­ar vita en ekki ég þannig að þegar ég var að hræra kremið eft­ir leiðbein­ing­un­um splittaði það ansi illa. Nú voru góð ráð dýr og mér datt ým­is­legt í hug en það var mis­gáfu­legt eins og ger­ist. Skársta hug­mynd­in sem ég fékk var að setja tvær eggj­ar­auður út í kremið til að freista þess að binda fit­una aft­ur. Kremið skánaði við það og síðan ákvað ég að hætta í bili (klukk­an var að nálg­ast miðnætti). Morg­un­inn eft­ir var kremið ögn skárra eft­ir nótt í kæli en fek­ar dap­urt þó. Lík­leg­asta skýr­ing­in var auðvitað sýr­an þannig að ég lagaði nýj­an skammt af kremi sem var full­kom­inn – áður en ég setti sítr­ónusaf­ann sam­an við en þá splittaði það aft­ur. Söku­dólg­ur­inn var því aug­ljós­lega fund­inn þannig að ég set þann fyr­ir­vara við upp­skrift­ina. Það stend­ur ekk­ert um þetta í bók­inni sem er skrítið. Kannski virk­ar bet­ur að nota bara sítr­ónu­börk­inn en ég prófa það síðar.

Þar sem maður á ekki að henda neinu notaði ég eldri skammt­inn á milli köku­lag­anna en ég notaði tvo svamp­botna til að þykkja neðri hluta kök­unn­ar. Síðan bjó ég til turn­inn eft­ir kúnst­ar­inn­ar regl­um. Ég stakk prjón­um í til að halda henni og hjúpaði kök­una svo með nýja krem­inu sem þó var frek­ar glatað (en skelfi­lega bragðgott).

Síðan var ekk­ert annað að gera en að skreyta kök­una með blóm­um úr garðinum og eins og sjá má var út­kom­an með skársta móti. Bragðgóð var hún engu að síður og upp­skar ég mikið hrós fyr­ir viðleit­in­ina. 

Eitt af meistaraverkunum úr bókinni. Ég hef reynt að baka …
Eitt af meist­ara­verk­un­um úr bók­inni. Ég hef reynt að baka þessa og það tókst nokkuð vel. Ég mæli með að þið æfið ykk­ur samt áður en hún er frum­sýnd í veislu þar sem hún er flók­in í fram­kvæmd og krefst tölu­verðrar lagni. Ljós­mynd/​Naked Ca­kes
Svona leit kakan út þegar ég gerið hana. Nokkuð gott …
Svona leit kak­an út þegar ég gerið hana. Nokkuð gott en þó ekki jafn glæsi­leg og fyr­ir­mynd­in. mbl.is/Þ​óra Sig
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert