Stökkt sykurlaust granóla - það besta sem þú munt smakka

Þessi uppskrift mun breyta morgnunum þínum. Ég lofa. Þvílík grenjandi …
Þessi uppskrift mun breyta morgnunum þínum. Ég lofa. Þvílík grenjandi góð snilld! mbl.is/TM

Ég les utan á allar umbúðir áður en ég ég kaupi matvæli þar sem oftar en ekki er búið að stútfylla þau af aukaefnum, svo þetta er nánast ekki matur lengur heldur iðnaðarvara. Ég forðast til dæmis að kaupa nokkuð þar sem sykur eða sterkja er eitt af fyrstu fjórum innihaldsefnunum, því röð efnanna í innihaldslýsingunni fer eftir hlutfalli magns þeirra í vörunni.

Ég elska múslí og granóla en oftar en ekki er búið að bæta við sírópi, sykri eða miklu magni af hunangi. Það er vissulega bragðgott og dásmlegt á sunnudögum en ekki sniðugt að byrja alla morgna á slíkum sykurrússíbana. Því geri ég mitt eigið granóla sem er bragðmikið, stökkt, trefjaríkt og hollt. Vissulega má bæta við hunangi ef fólk vill hafa það sætt en það stendur fyllilega undir sér án þess. Þessi uppskrift er úr bókinni minni Náttúrulega sætt og er uppáhald ansi margra. Ég ætlaði nú aldrei að láta þessa uppskrift frá mér en hún er of góð til að gleðja ekki allan heiminn! Ég stend og fell með því að þetta sé besta granóla sem hugsast getur. 

Innihaldsefni
1 stór og vel þroskaður banani
4 msk. kókosolía
1 msk. vanilluessens
Salt á hnífsoddi , örlítið salt dregur fram sætuna úr banönunum.
100 gr. tröllahafrar
50 gr. kókosflögur
50 gr. saxaðar hnetur, t.d. pekan, valhnetur, möndlur, hesilhnetur eða blanda af þeim öllum
2 msk. chiafræ
2 msk. sólblómafræ eða hörfræ
2 msk. gojiber, smátt saxaðar döðlur, apríkósur, rúsínur eða þurrkuð epli (eplabitarnir í Matbúri Kaju eru æði)
1 tsk. kanill ef vill

Leiðbeiningar
  1. Stappið banana vel og hrærið bræddri kókosolíu, kanil og vanilluessens saman við. Setjið blönduna til hliðar.
  2. Blandið öllum hinum innihaldsefnunum saman í skál.
  3. Hellið bananablöndunni saman við og blandið vel saman með höndunum. Blandan á að loða létt saman. Ef hún loðir nánast ekkert saman þarf aðeins meiri banana og olíublöndu.
  4. Dreifið blöndunni yfir bökunarpappír á bökunarplötu. Passið að rúsínur eða þurrkaðir ávextir standi ekki upp úr heldur séu þakin blöndunni, annars brenna þau.
  5. Bakið neðarlega í ofninum á 180 gráðum í 25 mínútur eða þar til blandan verður gyllt og stökk (verður enn stökkari við að kólna). Gott er að hræra 2-3 sinnum í blöndunni yfir bökunartímann.
  6. Kælið og geymið í loftþéttum umbúðum.
Athugasemdir
  1. Múslíið er gott í kökubotna, eplakökur, hafraklatta, út á skyr eða jógúrt eða með hnetu-, kókos- eða kúamjólk!

Höfundur: Tobba Marinósdóttir

Þetta granóla er ákaflega vinsælt á mínu heimili og borðað …
Þetta granóla er ákaflega vinsælt á mínu heimili og borðað alla morgna. Ég kippi þessu líka oft með í brönsboð eða sem gjöf handa góðum vinum. Dóttir mín kallar þetta þó aldrei annað en múslíng! mbl.is/TM
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka