Heimsins einfaldasta smjörkrem

Flott mynd en tengist fréttinni nákvæmlega ekki neitt fyrir utan …
Flott mynd en tengist fréttinni nákvæmlega ekki neitt fyrir utan að vera kaka með smjörkremi. mbl.is/Pinterest

Þetta er djörf fyrirsögn en sönn engu að síður. Undirrituð hefur ítrekað eyðilagt heilu skammtana af smjörkremi því þrátt fyrir það sem almannarómur segir þá er ekkert auðvelt við að búa til smjörkrem. En það tókst í þetta skiptið. Bragðaðist stórvel og uppskar töluvert hrós meðal viðstaddra og meira biðjum við ekki um.

Uppskriftin er sáraeinföld og augljóslega á allra færi. Ég gæðavotta ekki aðferðafræðina og mögulega munu einhverjir atvinnubakarar súpa hveljur af hryllingi en það verður bara að hafa það.

Engin mynd er til að sjálfri kökunni (sú myndvinnsla fór öll fram í gegnum Snapchat) en í afmælinu urðu allir voðalega hissa (sérstaklega af því að allur bakstur frá undirritaðri hafði verið afþakkaður) en svo urðu menn almennt undrandi þegar kakan bragðaðist líka svona stórvel.

Heimsins einfaldasta smjörkrem

  • 170 g smjör
  • 270 g flórsykur
  • 120 g rjómaostur

Aðferð:

  1. Í fyrsta lagi og þetta er mjög mikilvægt. Hafið smjörið og ostinn við stofuhita. Byrjið á því að þeyta smjörið eins og enginn sé morgundagurinn.
  2. Þegar smjörið er orðið vel þeytt og loftmikið (eða bara búið að þeytast í mínútu eða svo) skal byrja að blanda flórsykrinum saman við. Undirrituð hafði fullmikinn hraða á hrærivélinni og eldhúsið leit ekki alveg nógu vel út þannig að setja bara smá í einu.
  3. Að lokum skal setja rjómaostinn saman við og haldið áfram að þeyta.
  4. Slökkvið á hrærivélinni og alls ekki bæta neinu við sem gæti skemmt kremið – nema þið séuð ekki alltaf að lenda í því að eyðileggja smjörkrem.
  5. Setjið á hvað sem ykkur dettur í hug – þó helst köku og njótið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka