Ostagerð er minna mál en margan grunar. Ricotta-ostur hentar einstaklega vel til að toppa salöt, pizzur, brúsettur eða í ofnbakaða rétti. Hann er nokkuð laus í sér og minnir að einhverju leyti á afkvæmi kotasælu og rjómaosts.
Þessi ostur er syndsamlegur á pizzu og á sérstaklega með hráskinku og bökuðum sírópsfíkjum!
Ricotta-ostur með trufflukeim
1 lítri nýmjólk
400 ml rjómi
1 tsk. salt
2 msk. hvítt truffluedik (fæst í Búrinu)
1,5 msk. hvítvínsedik
Þú þarft góðan pott – helst steypujárn með húð að innan.
Skál
Sigti
Nýjan bleyjuklút/grisjuklút
Bleytið klútinn og leggið yfir sigtið og setjið sigtið yfir skál.
Hellið mjólkinni, rjómanum og saltinu í pott og hitið rólega upp að suðumarki. Hrærið reglulega svo engin skán myndist.
Slökkvið undir þegar suðumarki er náð og hellið edikinu út í.
Bíðið í mínútu á meðan edikið vinnur sitt verk og hleypir ostinn.
Hellið þá blöndunni yfir grisjuklætt sigtið og látið vökvann leka af.
Geymið ostinn í 3-4 daga í lofttæmdum umbúðum í kæli.