Þessi fiskréttur verður án efa einn af uppáhaldsréttum fjölskyldunnar. Rjómakennd sósa, mjúkur fiskur með stökku yfirborði og sveppirnir mynda saman einstaklega góða blöndu. Ég notaði hvítkál og grænkál því ég átti það til en það má sleppa því eða nota meira af öðru hvoru. Kálið felst vel í sósunni og þannig má smygla hollustu ofan í börnin - og eiginmenn eða -konur ef því er að skipta!
Með réttinum er gott að bjóða upp á hrísgrjón og salat. Til að gera hrísgrjónin enn betri er gott að hræra 1 msk af kókosolíu út í sirka 300 g af soðnum hrísgrjónum.
500 g steinbítur
70 g hveiti
2,5 msk karrí
1 tsk túrmerik
1 tsk salt
1/2 tsk pipar
1 egg
2 dl matreiðslurjómi
1 box sveppir
4 msk smjör
2 dl grænkál, saxað
1 dl hvítkál, saxað
Setjið í skál með lágum börmum hveiti, karrí, túrmerik, salt og pipar og hrærið vel saman.
Í annarri eins skál skal píska eggið.
Veltið fiskbitunum upp úr eggi og svo hveitiblöndunni. Geymið afganginn af hveitiblöndunni til að þykkja sósuna.
Bræðið 3 msk af smjöri á pönnu og steikið bitana á nokkuð háum hita svo stökk húð myndist.
Lækkið undir og ýtið fiskbitunum til hliðar á pönnunni og setjið 1 msk af smjöri á lausan hluta pönnunnar. Ef ekki er pláss má taka fiskbitana af á meðan sveppirnir eru steiktir.
Fiskur og sveppir malla á lágum hita. Bætið rjómanum út á pönnuna og kálinu. Setjið 2 msk af hveitiblöndunni út á (sáldrað yfir) til að þykkja sósuna. Bætið kálinu við og látið malla í 10 mínútur á lágum hita. Smakkið og kryddið til ef þarf.