Mexíkó kjúklingasúpur eru í gríðarlegu uppáhaldi hjá landsmönnum ef marka má vinsældir þeirra hér á Matarvefunum. Við erum því alltaf til í nýjar útfærslur af þessum magnaða rétti sem er svo einfaldur en í senn svo flókinn - svona hvað varðar bragð.
Þessi uppskrift er eftir Árna Þór Árnason lítur vel út svo að ekki sé meira sagt. Til að toppa herlegheitin er uppskriftin jafnframt aðgengileg á myndbandi en það hjálpar alltaf til. Myndbandið er hægt að nálgast hér.
En súpan er skotheld enda erfitt að klúðra uppskrift sem inniheldur rjómaost!
Mexíkósk kjúklingasúpa
Þessi uppskrift dugar fyrir 4-5
- 400 g kjúklingakjöt
- 1 msk. olía
- 1 stk. laukur
- 6 stk. plómutómatar skornir í bita
- 100 g blaðlaukur smátt saxaður
- 1 stk. rauð paprika smátt söxuð
- 1 stk. grænt chili fínt saxað
- 2 tsk. paprikuduft
- 3 msk. tómatpúrra
- 1½ l kjúklingasoð (vatn og teningur)
- 2 dl salsa sósa
- 100 g rjómaostur
Meðlæti í súpuna
- sýrður rjómi
- nachos flögur
- rifinn ostur
Aðferð:
- Steikið saman í olíu kjúklingakjötið, laukinn, blaðlaukinn, paprikuna, grænt chilli og plómutómatana.
- Bætið í paprikudufti og tómatpurré, blandið vel saman. Hellið saman við kjúklingasoðið og látið sjóða í 15-20 mí.n við vægan hita.
- Bætið salsasósu í súpuna ásamt klípum af rjómaostinum. Látið sjóða í 3-5 mín. við vægan hita. Berið súpuna fram með sýrðum rjóma, nachos-flögum og rifnum osti.