„Þetta er dæmigerður kvöldmatur hjá mér – ég fór í búðina, sá rauðsprettuflak sem mig langaði í og keypti það, velti því fyrir mér á heimleiðinni hvað ég ætlaði að elda, komst svo að því heima að ég átti ekki allt til sem ég hafði ætlað að nota svo að áætlunin breyttist í samræmi við það,“ segir Nanna um uppskriftina hér fyrir neðan. Hún var hæstánægð með útkomuna og segir uppskriftina vel duga fyrir tvo, sjálf eldi hún oftast frekar ríflega fyrir sig til að taka afganginn með í nesti.
Aðferð:
Nanna steikir rauðsprettuflök oftast heil ef þau eru lítil en þó geti verið þægilegt að skipta þeim í tvennt. Svona fór hún að: „Ég velti rauðsprettunni upp úr mjöli, krydduðu með pipar og salti. Hitaði svo olíu og smjör nokkuð vel á pönnu, setti rauðsprettuna á hana með roðhliðina upp og steikti við góðan hita í 2 mínútur. Þá sneri ég henni gætilega við og steikti í 2-3 mínútur á hinni hliðinni. Ef pannan er stór er hægt að steikja tómatana, grænkálið og ólífurnar með en annars má steikja það annaðhvort á undan eða eftir fiskinum. Grænkálið á að vera stökkt og svolítið brúnt og tómatarnir mjúkir. Ég stráði svo fræblöndunni yfir, þegar það var hálfsteikt, til að rista fræin aðeins. Svo bar ég þetta fram með rauðsprettunni, ásamt soðnu perlukúskúsi (mætti alveg vera hrísgrjón, bygg eða eitthvað allt annað).