Heimagert Red Velvet Oreo-kex

mbl.is/Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Stundum heppnast tilraunir það vel að undrum sætir – eða því sem næst. Það gerðist í þessu tilfelli þegar Lilja Katrín á blaka.is gerði heiðarlega (og afskaplega vel heppnaða) tilraun til að endurgera Red Velvet Oreo-kex sem hún hafði keypti í Kosti og klárað undir eins. 
„Ég baka nánast aldrei Red Velvet-köku, eða rauða flauelisköku, og ástæðan er einföld: Mér finnst hún allt of, allt of góð og borða allt of, allt of mikið af henni!,“ segir Lilja um baksturinn en sagan er ekki öll.
„Svo um daginn fór ég í Kost og sá þar pakka af Red Velvet Oreo-kexi sem ég bara varð að prófa. Ég sá rækilega eftir því þegar ég kom heim því ég var varla búin að opna pakkann þegar allt kexið var búið. Virkilega góð sykurvíma sem ég nældi mér í þann daginn.
Þannig að mig er búið að dagdreyma um þetta blessaða Red Velvet Oreo-kex síðan ég lá afvelta í sófanum með kökumylsnu niður á nafla. Því brá ég á það ráð að reyna að endurgera þetta himneska kex með svona líka góðum árangri þótt ég segi sjálf frá. Allt of góðum árangri. Ég er nefnilega búin að háma allt kexið sem ég bakaði í mig og því búin að fá það endanlega staðfest að Red Velvet er eitthvað sem ég á að forðast ef ég vil hugsa um heilsuna.
Ég verð samt líka að minnast á að besta hrós sem ég fékk um þessar kökur var frá dóttur minni, Amelíu Björt, 7 ára, en ég leyfði henni með trega að fá eitt kex. En bara eitt. Hún beit í kexið, lygndi aftur augunum og sagði svo: „Mamma, þetta er betra en hvítt súkkulaði!“ Þeir sem þekkja hana vita að hvítt súkkulaði er það besta sem hún fær.
En hér kemur uppskrift að Red Velvet Oreo-kexi. Fáránlega jólalegar smákökur sem á eftir að baka aftur og aftur á aðventunni – nema ég læsi kökuboxinu með hengilás! 
P.s. Ég skar L út í kökurnar mínar því þetta er auðvitað ekki Oreo-kex lengur heldur Liljos! Nú, eða Blakos!“
 
mbl.is/Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Heimagert Red Velvet Oreo-kex
Hráefni:
  • 225 g mjúkt smjör
  • 2/3 bolli sykur
  • 2 bollar hveiti
  • 1/4 bolli kakó
  • 1/2 tsk. salt
  • rauður matarlitur
Aðferð: 
  1. Byrjið á því að þeyta smjör og sykur vel saman þar til blandan er létt og ljós. Blandið síðan hveiti, kakói og salti saman við þar til blandan líkist mulningi.
  2. Bætið síðan matarlitnum út í, en ég nota gelmatarliti og þurfti tvær klessur til að ná litnum sem ég vildi. Hrærið þar til deigið er farið að tolla vel saman.
  3. Klæðið deigið í plastfilmu, fletjið það aðeins út með lófanum og kælið í ísskáp í klukkutíma eða í frysti í korter. Þetta skref er mjög mikilvægt. Kökurnar verða ekki bara bragðbetri eftir kælingu heldur verður deigið miklu meðfærilegra. 
  4. Hitið ofninn í 160°C og setjið smjörpappír á tvær ofnplötur. Fletjið deigið út í þá þykkt sem þið viljið og munið að þessar kökur stækka ekkert inni í ofninum. Ég mæli með að skipta deiginu í 3-4 parta þegar verið er að fletja út til að gera það auðveldara. Skerið út hringi úr deiginu, þá með smákökuformi eða glasi, og raðið þétt saman á plöturnar. Bakið í 15-20 mínútur og leyfið kökunum að kólna alveg áður en þær eru skreyttar með kreminu.
 
Krem
 
Hráefni:
  • 115 g mjúkur rjómaostur
  • 115 g mjúkt smjör
  • 3 bollar flórsykur
  • 2 tsk. vanillusykur
Aðferð:
  1. Þeytið rjómaost og smjör vel saman í 3-4 mínútur svo kremið verði létt í sér. Bætið síðan flórsykri og vanillusykri saman við og hrærið vel.
  2. Sprautið kreminu á annan helminginn af smákökunum og lokið þeim með hinum helmingnum. Hve fallegar eru þessar dúllur á jólaborðinu? Fagurrauðar og æðislegar!
mbl.is/Lilja Katrín Gunnarsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka