Gamaldags ömmusnúðar sem engan svíkja

mbl.is/Berglind Hreiðarsdóttir

Flestir hafa einhverntímann á ævinni gætt sér á alvöruömmusnúðum enda fátt betra og meira viðeigandi í skammdeginu. Bestir eru þeir nýbakaðir og ylvolgir en þá hreinlega bráðna þeir uppi í munninum. Eitt er víst og það er að þessi uppskrift er skotheld enda kemur hún úr smiðju ömmu hennar Berglindar Hreiðars á Gotterí og gersemar (gotteri.is) en hún birti meira að segja mynd af handskrifaðri uppskriftinni inni á síðunni sinni.

Ömmusnúðar

  • 500 g hveiti
  • 180 g smjörlíki við stofuhita
  • 150 g sykur
  • 2 tsk. lyftiduft
  • 1 tsk. hjartarsalt
  • 1 egg
  • Mjólk eftir þörfum
  • Rjómi og kanelsykur til að smyrja á milli

Aðferð:

  1. Hitið ofninn 180°C
  2. Setjið allt saman í hrærivélarskálina (nema rjóma og kanelsykur) og blandið með K-inu
  3. Hellið bara smá mjólk í einu (nokkrum msk. í einu) og takið blönduna úr hrærivélinni meðan hún er enn frekar þurr en þó þannig að þið getið kreist deigið saman í lófanum og það heldur sér saman.
  4. Færið yfir á borð og hnoðið svolitla stund, deigið mýkist við það og ef ykkur finnst þurfa meiri mjólk þá má setja nokkrar tsk. í einu saman við og hnoða vel á milli.
  5. Fletjið síðan deigið út á hveitistráðu borði, ca. 30 x 40/50 cm.
  6. Penslið með rjóma og stráið vel af kanelsykri yfir.
  7. Rúllið upp (frá lengri hliðinni) og skerið niður rúmlega 1 cm sneiðar og raðið á bökunarplötu.
  8. Bakið þar til snúðarnir fara að gyllast.

Ég skal mæla magnið af mjólkinni betur í næstu tilraun og uppfæri þá uppskriftina hér inni en þetta er bara spurning um að setja eins mikið af mjólk og þið komist upp með án þess að deigið verði of blautt til að hægt sé að fletja það út og rúlla upp.

mbl.is/Berglind Hreiðarsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka