Langbestu piparkökurnar

Piparkökurnar góðu.
Piparkökurnar góðu. mbl.is/Valgerður Gréta Guðmundsdóttir

Valgerður Gréta Guðmundsdóttir í Eldhúsinu hennar Völlu á þessa uppskrift sem hún fullyrðir að sé sú allra besta. Hún segir að þessi uppskrift sameini allt það sem henni finnist eiga að prýða góðar piparkökur: stökkar en ekki grjótharðar, í dekkri kantinum og mjög bragðmiklar án þess að það sé samt yfirgnæfandi kryddbragð.

Langbestu piparkökurnar

Þegar þú hefur prófað þessa skilur þú hvað ég á við. Mæli með því að prenta hana út og geyma eða skrifa hana í „bókina“ þína ef þú átt svona þreytta handskrifaða uppskriftabók eins og ég. Eins og með flestar uppskriftir er best að gera daginn áður og geyma í kæli þangað til daginn eftir. Einnig er mjög mikilvægt að taka deigið út úr ísskápnum eða inn af svölunum/garðinum með nokkurra tíma fyrirvara svo deigið sé ekki alveg grjóthart og ómögulegt þegar á að fara að fletja út.

  • 500 gr. hveiti
  • 250 gr. sykur
  • 180 gr. smjör (upprunalega uppskriftin biður um smjörlíki en ég nota það helst aldrei)
  • 2 tsk. matarsódi
  • 2 tsk. negull
  • 2 tsk. engifer
  • 1/2 tsk. hvítur pipar
  • 4 tsk. kanill
  • 1 dl sírópið í grænu dollunum
  • 1 dl mjólk

Aðferð:

  1. Setjið smjörið og sírópið saman í pott og bræðið saman við vægan hita. Þegar blandan er alveg að verða bráðin setjið þá allt krydd út í og hrærið saman.
  2. Takið af hellunni og setjið önnur þurrefni saman í hrærivélaskál. Notið krókinn og hellið sírópskryddblöndunni út í ásamt mjólk. Hrærið vel saman þangað til deigið er orðið samfellt og slétt.
  3. Setjið plast yfir skálina og kælið yfir nótt eins og áður sagði. Munið að taka deigið svo út með góðum fyrirvara.
  4. Fletjið deigið frekar þunnt út þar sem það blæs svolítið upp.
  5. Bakið við 195°C í ca. 6-7 mín. Kælið svo á grind og skreytið með glassúr ef vill.
  6. Persónulega finnst mér þær eiginlega bestar án glassúrs en það er auðvitað bara smekksatriði eins og hvað annað.


Þú munt aldrei þurfa að leita að piparkökuuppskrift aftur...
Gleðilega aðventu kæru vinir!

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka