Þetta salat hentar sérstaklega vel með innbakaðri nautalund eða nautasteik. Á mínu heimili er ein grænmetisæta, hún systir mín, og því legg ég mjög mikið upp úr fjölbreyttu og ljúffengu meðlæti. Þetta salat er einmitt það.
Ítalskt aspassalat
10 ferskir aspasstönglar
2 msk smjör
150 g klettakál
parmesanostur
sítrónuolía
2 msk furuhnetur, ristaðar
salt
pipar
Skolið aspasinn upp úr köldu vatni og þerrið. Skerið trénaða hlutann burt. Ef þú ert óviss um hvar hann er trénaður þá er hægt að beygja aspasinn. Hann brotnar rétt fyrir ofan skilin á því trénaða og ótrénaða.
Bræðið smjör á pönnu og léttsteikið aspasinn í stuttan tíma á háum hita. Við viljum halda í stökkleikann!
Raðið honum á disk, setjið klettasalat yfir, grófar parmesanflögur (ég nota skrælara) og loks hneturnar. Dreypið sítrónuolíu yfir og piprið.