Innbökuð hátíðarhollustu-wellington!

Sjúklega girnilegt og gómsætt.
Sjúklega girnilegt og gómsætt. mbl.is/Hugmyndir að hollustu

Hún Sæunn hjá Hugmyndiraðhollustu.is deilir hér guðdómlegri uppskrift að hátíðar-wellington sem jafnframt er vegan. Hún segist þróa nýja hátíðaruppskrift fyrir hver jól og þetta árið varð wellington fyrir valinu. Hún segir réttinn bragðgóðan, hátíðlegan en umfram allt auðveldan í framkvæmd.

Innbakað Hátíðar-Oumph!

Steikin:

  • 1 box sveppir
  • 2-6 stk. skalottlaukar (fer eftir stærð, ca. 60 grömm)
  • 6 hvítlauksrif
  • Dass af tamari- eða sojasósu
  • 1 teningur sveppakraftur
  • 3-4 plötur af smjördeigi
  • 1 poki Oumph! thyme & garlic
  • 150 gr. soðnar kartöflur
  • 1 tsk. hvítlauksmauk
  • Salt og pipar
Sósan:
  • 1 stk. laukur
  • 2-3 hvítlauksrif
  • 1 box sveppir
  • 2-3 Rapunzel-grænmetisteningar
  • 1 dós kókosmjólk
  • 2-3 msk. hveiti eða annað mjöl
  • 1-2 cl Bristol Cream-sérrý
  • Svartur pipar
Músin:
  • 600 g sæt kartafla
  • 3-4 dl sykurlaus möndlumjólk
  • 1⁄2 tsk. salt
  • 1⁄2 tsk. múskat

Aðferð:

Steikin:
  1. Taktu smjördeig og Oumph! úr frysti a.m.k. klukkutíma fyrir matargerðina.
  2. Saxaðu sveppi, lauk og hvítlauk og settu á pönnu ásamt örlitlu vatni. Stilltu á háan hita og hrærðu vel í á meðan sveppirnir gefa frá sér vökva. Bættu sveppakrafti og sojasósu á pönnuna og láttu krauma vel þar til allur vökvi er gufaður upp og blandan orðin vel þurr.
  3. Smakkaðu til með salti og pipar, taktu af pönnunni og láttu kólna.
  4. Steiktu Oumph við ríflegan meðalhita á þurri pönnu, hrærðu vel í á meðan svo það brenni ekki. Markmiðið er að losa það við sem mestan vökva og fá létta steikingaráferð á það. Taktu svo til hliðar og láttu kólna.
  5. Stappaðu kartöflur gróflega saman við hvítlauksmaukið, geymdu til hliðar.
  6. Ef tíminn er nægur er gott að geyma allt í ísskáp í 1-2 klukkutíma áður en haldið er áfram. Það auðveldar samsetninguna og innpökkunina.
  7. Stráðu örlitlu hveiti á borð, leggðu smjördeigsplöturnar ofan á hveitið og láttu skammhliðarnar skarast örlítið. Þrýstu plötunum saman og rúllaðu þær út með kökukefli í stóran ferhyrning.
  8. Dreifðu stöppuðu kartöflunum langsum eftir deiginu miðju. Skildu eftir nægilega mikið autt deig allan hringinn til að geta vafið því saman í lokin.
  9. Dreifðu sveppablöndunni yfir kartöflurnar, þrýstu létt niður og svo Oumphinu í lokin.
  10. Lokaðu deiginu eftir endilöngu og brjóttu endana saman. Veltu svo steikinni yfir á bökunarpappír með samskeytin niður. Skerðu nokkrar línur í yfirborðið.
  11. Láttu bakast í ofni við 180°C í 30-40 mínútur eða þar til smjördeigið er orðið gullbrúnt.
 Sósan:
  1. Saxaðu lauk og hvítlauk og settu í þykkbotna pott ásamt smá skvettu af vatni. Stilltu á ríflegan meðalhita og láttu mýkjast í nokkrar mínútur eða þar til laukurinn er orðinn nokkuð glær.
  2. Grófsaxaðu sveppina og bættu út í pottinn, hitaðu í botn og láttu sveppina dökkna vel.
  3. Bættu kókosmjólk og grænmetisteningum út í og láttu suðuna koma upp.
  4. Hristu hveiti saman við ca. 1/2 dl af vatni og helltu í mjórri bunu út í sjóðandi súpuna, hrærðu vel á meðan.
  5. Smakkaðu til með svörtum, nýmöluðum pipar og smá skvettu af sérrý.
Músin:
  1. Skerðu kartöfluna í teninga og settu í víðan pott eða pönnu ásamt möndlumjólkinni og kryddinu.
  2. Láttu sjóða við miðlungshita þar til kartöflurnar eru orðnar mjúkar í gegn og stappast mjög auðveldlega.
  3. Settu allt saman í matvinnsluvél (ef hún þolir hitann) eða maukaðu með töfrasprota.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert