Úrvalsbleikja að hætti Nönnu

mbl.is/Nanna Rögnvaldar

Það eru fáir flinkari eða fróðari um mat en Nanna Rögnvaldardóttir sem heldur úti hinni skemmtilegu matarbloggsíðu Konan sem kyndir ofninn sinn. Hér erum við með eina skothelda úr hennar smiðju sem er alltaf vel við hæfi.

Bleikja á mangósalsa

  • 1 bleikjuflak, frekar lítið
  • 1/4 tsk paprikuduft
  • pipar
  • salt
  • 1 msk olía
  • ½ mangó, þroskað
  • 1 lítil lárpera, vel þroskuð
  • 1 tómatur, vel þroskaður
  • safi úr 1 límónu
  • safi úr ¼ blóðappelsínu eða appelsínu
  • 3 msk ólífuolía
  • lúkufylli af klettasalati
  • 5-6 pekanhnetur

Ég var með eitt bleikjuflak, ekki mjög stórt – passlegt fyrir mig í kvöldmatinn og svolítill afgangur til að hafa í nestið daginn eftir. Blandaði saman 1/4 tsk af paprikudufti, pipar og salti og kryddaði bleikjuna með því. Hitaði svo 1 msk af olíu á pönnu og steikti bleikjuna, fyrst í svona 2 mínútur með roðhliðina upp við nokkuð góðan hita, sneri henni svo við, lækkaði hitann (ekki að það skipti svo miklu máli á járnpönnu) og steikti í svona 3 mínútur í viðbót, eða þar til bleikjan var rétt gegnsteikt.

Á meðan (kannski betra áður ef maður er ekki þeim mun fljótari að saxa) tók ég vel þroskað mangó – notaði reyndar bara helminginn af því í salsað, hitt í annað – flysjaði það, fjarlægði steininn og skar það í teninga.

Svo tók ég eina litla lárperu, flysjaði hana, steinhreinsaði og saxaði, og fræhreinsaði líka einn vel þroskaðan tómat og skar hann í teninga.

Svo tók ég eina límónu og fjórðung af blóðappelsínu (eða venjulegri appelsínu), kreisti safann úr þeim í stóra skál og þeytti 3 msk af ólífuolíu saman við, ásamt pipar og salti.  Setti svo mangóið, lárperuna og tómatinn út í ásamt lúkufylli af klettasalati og nokkrum grófmuldum pekanhnetum.

Setti salsað svo á disk, tók bleikjuflakið af pönnunni og lagði ofan á.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka