Ofnbakaður fiskur með mascarpone og sólþurrkuðum tómötum

Suðrænn og seiðandi.
Suðrænn og seiðandi. mbl.is/Hanna.is

Þessi fiskuppskrift er sérlega girnileg enda fátt meira viðeigandi en að gæða sér á suðrænni fiskiveislu um hávetur. Það er Hanna Þóra á Hanna.is sem á þessa uppskrift en við erum sérlega hrifin af síðunni hennar og uppskriftunum. Þessi réttur ætti engan að svíkja.

Ofnbakaður fiskur með mascarpone og sólþurrkuðum tómötum

  • 800 g þorskhnakki, langa eða annar fiskur
  • 2-3 hvítlauksrif – pressuð
  • 200-250 g niðursoðnir maukaðir tómatar
  • 200-250 g mascarponeostur
  • 1-1½ dl sólþurrkaðir tómatar í olíu – má gjarnan setja aðeins af olíunni með
  • Hvítlaukspipar
  • Parmesanostur
  • Grænmeti eins og gulrætur eða vorlaukur.
  • Saltflögur

Aðferð:

  1. Gulrætur skornar í þunnar sneiðar og vorlaukur skorinn í tvennt – má sleppa.
  2. Ofninn hitaður í 180°C.
  3. Fiskurinn lagður í eldfast fat og sólþurrkuðum tómötum dreift yfir.
  4. Mascarponeostur og tómatamauk sett í pott og hitað þar til allt hefur blandast vel saman – hvítlauk bætt við.
  5. Gulrótum eða öðru grænmeti dreift yfir fiskinn.
  6. Blöndunni hellt yfir fiskinn og rifnum parmesanosti stráð yfir
  7. Fatið sett í ofninn og rétturinn látinn bakast í 15 – 20 mínútur (fer eftir þykkt fiskbitana)
  8. Gott að dreifa grófu salti aðeins yfir áður en rétturinn er borinn fram

Meðlæti:

Kartöflur eða hrísgrjón, ferskt salat og nýbakað brauð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert