Þessi uppskrift hljómar eiginlega of vel. Djúsí og holl og sérlega viðeigandi við hvert tilefni. Það er Linda Ben sem á heiðurinn af uppskriftinni og eins og venjulega stendur hún undir væntingum. Dásamlega djúsí og sérlega viðeigandi.
Tortellini með grænmeti og hvítlauks-rjómasósu
fyrir 3
- 250 g tortellini, fyllt með osti
- 1 msk. olía og salt
- 125 g sveppir
- 1 rauð paprika
- 1/2 rauðlaukur
- 1 msk. smjör
- 100 g spínat
- 2 hvítlauksgeirar
- 250 g matreiðslurjómi
- örlítill sósuþykkir
- salt og pipar
- 100 g rifinn ostur
Aðferð:
- Sjóðið pastað samkvæmt leiðbeiningum.
- Steikið rauðlaukinn á pönnu upp úr olíu, skerið sveppina niður og steikið þá upp úr 1 msk. af smjöri. Skerið paprikuna niður og steikið hana. Skerið hvítlaukinn smátt niður og steikið hann.
- Hellið rjómanum út á grænmetið, smakkið til með salti og pipar og bætið örlitlu af sósuþykki út á til að fá réttu áferðina á sósuna, best að byrja mjög lítið og auka svo hægt og rólega.
- Bætið spínatinu út í sósuna og sjóðið í 1 mín. Kveikið á ofninum og stillið á grillið.
- Setjið pastað í eldfast mót, hellið sósunni yfir og dreifið rifnum osti yfir. Setjið réttinn inn í ofninn og grillið þar til osturinn er alveg bráðnaður og rétt byrjaður að brúnast.