Gleðisprengjan Unnur Pálmarsdóttir hefur starfað við heilsu- og líkamsrækt í yfir 20 ár sem hóptímakennari og einkaþjálfari. Unnur er mannauðs- og markaðsstjóri hjá Reebok Fitness á Íslandi og er nokkuð lunkin í að elda hollan og góðan mat.
Aðspurð um stærstu eldhúsmistökin brosir Unnur. „Þetta er frekar skondin saga en ég var að baka súkkulaðiköku og ákvað að prófa nýtt súkkulaðikrem sem Fjóla tengdamamma mín heitinn var þá nýbúin að segja mér frá. Það kaffikrem væri svo gott. Svo ég auðvitað setti kaffi sko malað út í súkkalaðið sem ég var að blanda saman. Svaka ánægð býð ég svo bóndanum upp á kökuna og hann segir að þetta sé nú eitthvað skrýtið bragð og kornótt. Þá átti ég auðvitað að hita kaffi og setja nokkrar teskeiðar í súkkulaðikremið þannig var nú uppskriftin. Nú það var mikið hlegið að þessu og lifir enn í dag.“
En hvert skyldi uppáhaldskaffihús Unnar vera?
„ Uppáhalds kaffihúsið mitt er Kaffihúsið á Kjarvalsstöðum hjá Marentzu Poulsen. Það er alltaf svo notalegt að fá sér gott kaffi og meðlæti þar og njóta líðandi stundar.“
Hvað borðar þú fyrir æfingu ?
„Ég borða oftast egg, epli og banana fyrir æfingar.“
En eftir æfingu?
„Ég borða oftast klukkutímar eftir æfingu og þá er það hlaðið af próteinum, kolvetnum og góðri fitu. Til dæmis er í uppáhaldi hjá mér að borða eggjahræru með kjúklingi, grænmeti, avókadó með hýðishrísgrjónum.“
Hver eru þín helstu meðmæli til þeirra sem vilja bæta matarræðið?
„Mitt ráð til lesenda er að neyta fjölbreyttrar fæðu. Það skiptir miklu máli. Borða úr öllum fæðuflokkum og passa vel upp á blóðsykurinn. Ég mæli einnig með að skrifaðu æfingadagbók á þeim dögum sem þú æfir og þá daga sem þú æfa ekki. Mikilvægt er að setja líkamsræktina í forgang, neyta hollrar fæðu og hafa svefninn í lagi. Gott skipulag er lykillinn að árangri. Njótu líðandi stundar og muna að bros kostar ekkert og hrósa hvort öðru. Það eru mín helstu meðmæli til ykkar kæru lesendur," segir Unnur og deilir með okkur uppskrift af hollum og góðum kvöldverði.
Bleikja í lime, engifer og kóríander
Hollur, einfaldur og fljótlegur réttur og umfram allt svo ljúffengur.
Hráefni:
3 flök af bleikju
2 stk meðal stór sætar kartöflur
Salt
Smjör
Marínering:
1/2 stk lime - safinn
kóríander skorið niður að vild
5-7 cm engifer rifið niður
1/2 dl jómfrúarolía
Sætar kartöflur:
Sætar kartöflur eru skornar niður í strimla, jómfrúarolíu hellt yfir kartöflurnar og ein tsk af sjávarsalti stráð yfir. Eldið kartöflurnar í ofni við 220 gráður í 30 mínútur.
Fusion salat:
Iceberg salat
1 stk rauð paprika
2 lúkur af spínati
½ agúrka
Bláber
6 stk jarðaber
1 msk Chia Fræ
Salat dressing:
1 sítróna, safinn
5 – 7 cm engifer rifið niður eða sett í blandara
2 msk jómfrúarolía
Hliðardiskur
Bláber og jarðaber
Fiskurinn var maríneraður í lime-safa, kóríander, engifer, jómfrúarolíu. Salt og pipar var svo stráð yfir. Ég set svo 2 msk af smjöri yfir bleikjuna.
Bleikan er elduð í ofni við 180 gráður hita í 18 mínútur. Sætar kartöflur og Fusion salat er borið fram með bleikjunni. Ég helli sítrónu- og engifer dressingunni yfir bleikjuna. Ég er svo hrifin af því að hafa hliðardisk með sem á eru jarðaber og bláber, það er mjög ljúffengt með.
Maturinn er auðvitað borinn fram á fallegum disk því eins og Elísabet Taylor sagði að allt bragðast betur í fallegum borðbúnaði og glösum. Lífið verður einfaldlega skemmtilegra!