Samband fólks við hina ýmsu rétti getur verið ansi einkennilegt. Matarbloggarinn og meistarakokkurinn Berglind Guðmundsdóttir hjá Gulur, rauður, grænn og salt segist eiga í ansi skrautlegu sambandi við lasagna sem hingað til hefur litast að fremur neikvæðum tilfinningum.
Það kom því heimilisfólkinu í opna skjöldu þegar hún eldaði þessa uppskrift á dögunum sem þótti hreinasta afbragð.
Ó svo gott lasagna
- 8 stk lasagnaplötur
- 500 g nautahakk
- 3-4 hvítlauksrif, pressuð
- 1/2 laukur, saxaður
- 1 dós tómatar, saxaðir
- 1 stór dós kotasæla
- 2 msk tómatpúrra
- rifinn ostur
Sósa
- 1 dós sýrður rjómi.
- 1 grænmetisteningur
- 1 msk tómatpúrra
- 2 msk Philadelphia rjómaostur
- smá mjólk
- sítrónupipar
Aðferð:
- Setjið olíu á pönnu og steikið laukinn þar til hann er farinn að mýkjast.
- Bætið nautahakki og hvítlauk saman við. Þegar kjötið hefur brúnast setjið tómatana saman við ásamt kotasælu og tómatpúrru. Látið malla í dágóða stund. Saltið og piprið.
- Setjið hráefnin fyrir sósuna saman í pott og hitið varlega og blandið vel saman. Látið ekki sjóða. Þynnið með mjólk.
- Setjið til skiptis lasagnaplötur, kjötsósu og sósu endurtakið þar til hráefnin hafa klárast. Setjið rífleg magn af osti yfir og látið inn i 200°c heitan ofn í um 20 mínútur.