Fiskborgarar eru ákaflega vanmetin fæða en svo afskaplega bragðgóð þegar hún er rétt framreidd. Matarbloggarinn Hanna Þóra deilir hér þessari uppskrift sem hún segir að séu fremur fljótlegir og bragðist alveg sérstaklega vel. Fyrir þá sem vilja ítarlegri myndskýringar er hægt að nálgast þær inn á síðuni hennar Hönnu Þóru.
„Ég sá þessa útfærslu á fiskborgurum í breskum sjónvarpsþætti – breytti aðeins og giskaði á magnið en útkoman varð mjög góð. Meðlætið er einfalt, salat og laukur, en með því að djúpsteikja laukhringina mildast bragðið af þeim. Eflaust er líka gott að hafa ferska laukhringi en laukbragðið verður líklega svolítið meira áberandi (gott að leggja þá í kalt vatn í svolitla stund). Ef til er wookpanna eða lítill pottur á heimilinu er einfalt að djúpsteikja nokkra laukhringi en hitaeiningafjöldi hamborgarans hækkar óneitanlega töluvert við það. Sósan er bragðgóð og á alveg sérstaklega vel við – þegar hún hefur staðið svolítið verður hún fallega grænleit. Léttir og góðir fiskborgarar sem bragðast alveg sérstaklega vel," segir Hanna Þóra um borgarana góðu.
Svakalega góðir fiskborgarar
Sósa – gott að byrja á sósunni þar sem hún má gjarnan standa
- ½ dl fersk persilja/steinselja
- 1 tsk dill – þurrkað
- 1 msk capers
- ½ dl graslaukur
- 1 dl majónes
- Rúmlega ½ dl ab-mjólk
- 4 – 6 dropar græn tabasco sósa (green pepper sauce)
- Ögn af saltflögum
- Nýmalaður pipar
Fiskborgarar
- 200 – 250 g ýsa – söxuð eða skorin í mjög smáa bita
- 200 – 250 g lax – saxaður eða skorinn í mjög smáa bita
- Rúmlega ½ dl persilja/steinselja
- Börkur af u.þ.b. ¼ lífrænni sítrónu – rifinn fínt
- ½ dl rasp
Laukhringir
- 50 g hveiti
- 1 msk maizenamjöl
- 1 eggjarauða
- ¾ – 1 dl vatn
- 1 – 1½ gulur laukur
Verklýsing
Sósa
- Allt hráefni sett í matvinnsluvél og maukað saman
- Gott að láta sósuna standa og jafna sig aðeins
Fiskborgarar
- Fiskur saxaður smátt með hnífi eða í matvinnsuvél
- Öllu blandað saman – með fingrunum og 100 – 120 g kúlur búnar til
- Fiskborgarar mótaðir og steiktir/grillaðir í u.þ.b. 2 – 3 mínútur á hvorri hlið á rúmlega meðalhita þannig að þeir fái fallegan lit
Laukhringir – djúpsteiktir
- Hveiti, vatni, maizenamjöli og eggjarauðu blandað saman í skál
- Laukur skorinn í sneiðar
- Olía (sólblómaolía) sett í djúpa pönnu og hituð – laukhringjum dýft í deigið og þeir settir varlega ofan í olíuna og steiktir þar til fallegur litur er kominn á þá – gott að snúa þeim einu sinni. Laukhringir teknir upp og lagðir á eldhúspappír. Til að fá þá ennþá meira „djúsí“ má dýfa þeim aftur í deigið og djúpsteikja þá aftur
Samsetning: Hamborgarabrauð hituð/ristuð og sósa sett neðst. Fiskborgari lagður ofan á, ásamt salati og laukhringjum og að lokum kemur sósa. Gott að bera fram með ofnsteiktum kartöflum eða sætum kartöflum.
Sjúklega girnilegur borgari.
mbl.is/Hanna Þóra