Brauðrétturinn sem þjóðin elskar

Löðrandi af osti og kynþokka.
Löðrandi af osti og kynþokka. mbl.is/Kristinn Magnússon

Brauðréttir eru mikil og merkileg trúarbrögð. Engin veisla er fullkomin án þeirra og helst má engu breyta ellegar getur veislan verið argasta klúður. Undirrituð hefur gríðarlega reynslu af brauðréttum í gegnum tíðina og tók því fagnandi þegar hinn meðlimur ritstjórnar Matarvefsins, Tobba Marinós, skoraði á undirritaða í brauðréttaeinvígi aldarinnar. 

Á meðan ungfrú Tobba ákvað að vinna með lönd og galdra fram mexíkóska og ítalska brauðrétti ákvað ég að halda mig við heimahagana enda hef ég enn ekki rekist á þá þjóð sem toppar okkur í brauðréttum. Kannast einhver við ítalskan brauðrétt? Hélt ekki. 

Fyrsti rétturinn sem ég tefli fram er klassísk skinku- og apsasrúlla með smá óvæntu tvisti. Í stað þess að smyrja rúlluna með mæjónesi og skella osti yfir ákvað ég að bæta aðeins við réttinn og kom það ótrúlega vel út. Svo vel reyndar að starfsmenn Árvakurs áttu vart orð yfir hversu góður og sniðugur brauðrétturinn var. Síðan eru liðnir tveir dagar og um fátt annað er rætt í höfuðstöðvum Árvakurs en hversu stórkostleg þessi keppni var og hversu öruggur sigur minn hefði verið. 

Hjúpurinn sem ég setti yfir rúlluna var stökkur kryddhjúpur. Vandræðalega einfaldur og bætti miklu við annars nánast fullkominn rétt. 

Brauðrétturinn þótti svo góður að slegist var um hann. Margir …
Brauðrétturinn þótti svo góður að slegist var um hann. Margir vildu meina að þetta væri besti brauðréttur sem þeir hefðu smakkað. mbl.is/Kristinn Magnússon

Brauðrétturinn sem þjóðin elskar

  • 1 rúllutertubrauð (fínt)
  • 1 dós niðursoðinn grænn aspas
  • 1 skinkubréf
  • 1/2 poki rifinn ostur
  • 1/2 dós mæjónes
  • salt og pipar

Kryddhjúpur:

  • 1 poki brauðteningar
  • 2 msk. ristuð fræ eða hnetur
  • 1 msk. söxuð steinselja (fersk)
  • salt og pipar
  • 1 eggjahvíta

Aðferð:

  1. Fletjið rúllutertubrauðið varlega út. Smyrjið það með mæjónesinu. 
  2. Opnið aspasdósina og hellið vökvanum af. Setjið á brauðið og dreifið jafnt. 
  3. Saxið niður skinkuna og dreifið úr henni á brauðið.
  4. Saltið og piprið. 
  5. Rúllið nú rúllunni þétt og varlega upp. Látið rúlluna hvíla á sárinu eða endanum. 
  6. Bakið í 10 mínútur við 200 gráður. 
  7. Á meðan rúllan er inni í ofni skal undirbúa hjúpinn. 
  8. Léttþeytið eggjahvítuna. 
  9. Setjið brauðteningana í skál og myljið þá nokkuð niður. Passið þó að þeir endi ekki sem duft. 
  10. Setjið hneturnar, steinseljuna og kryddið saman við. 
  11. Takið brauðréttinn úr ofninum. Penslið með eggjahvítunni - vel og vandlega. Setjið síðan kryddhjúpinn yfir. 
  12. Setjið inn í ofn og bakið í 10 mínútur til viðbótar. 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka