Við höldum áfram með brauðréttaeinvígið ógurlega þar sem ritstjórn Matarvefjarins galdraði fram girnilega brauðrétti í leitinni að besta brauðrétti í heimi.
Þessi brauðréttur er mjög í takt við tíðarandann en eins og allir vita er súrdeigsbrauð ákaflega mikið í tísku þessi dægrin. Að sjálfsögðu væri hægt að að nota venjulegt brauð í réttinn.
Hér er það útlitið sem skiptir töluverðu máli því hann steinliggur á veisluborðinu og sómir sér vel í hvaða boði sem er.
Súrdeigsbrauðréttur með osta- og beikonfyllingu
- 1 súrdeigsbrauð
- 1 poki rifinn ostur
- 200 gr. rjómaostur
- 1 camembert
- 8 sneiðar af beikoni
- 2 dl rjómi
- 2 stilkar garðablóðberg (timían)
- 8 sveppir
- sítrónugras
- hvítlaukur
Aðferð:
- Hitið ofninn í 180 gráður.
- Byrjið á því að skera beikonið smátt niður og steikja á pönnu. Því næst skal saxa sveppina niður og bæta út á pönnuna ásamt garðablóðberginu. Steikið og alveg í blálokin skal rífa ferskt sítrónugras (bara smá) og ferskan hvítlauk (líka bara smá) yfir.
- Setjið rjómann og ostinn út á pönnina og hrærið þar til osturinn er bráðinn.
- Skerið brauðið þversum og látið skurðinn ná alveg að botninum en passi að skera ekki í gegn. Endurtakið leikinn langsum og búið þannig til fallegt tíglamynstur.
- Þegar osta- og beikonblandan er tilbúin skal hella henni varlega út á brauðið. Hér þarf töluverða fingrafimi og gott er að nota könnu til að koma blöndunni varlega á milli.
- Vefjið brauðinu í álpappír og setjið í ofninn í 15-20 mínútur.
- Stillið ofninn á grill og takið brauðið út og fjarlægið álpappírinn (eða opnið hann að ofan þannig að osturinn fái að malla á yfirborðinu og verða brúnt og girnilegt).
- Berið fram í heilu lagi.
Svona lítur dásemdin út.
mbl.is/Kristinn Magnússon