Þessi réttur er hinn fullkomni kvöldverður. Auðveldur, bragðgóður og eitthvað sem allir í fjölskyldunni geta borðað þrátt fyrir ólíkar meiningar.
Það er Berglind Guðmundsdóttir á Gulur, rauður, grænn og salt sem á heiðurinn að uppskriftinni en eins og allir vita er hún algjör meistari í eldhúsinu.
Sjálf segir hún að rétturinn sé ofureinfaldur, fljótlegur og dásamlega bragðgóður en það sé jógúrtsósan sem setji punktinn yfir i-ið. Hún bar réttinn fram með hrísgrjónum, góðu salati og nachosi sem vakti stormandi lukku.
Kjúklingatortillur með sætkartöflum og jalapeno-jógúrtsósu
Kjúklingatortilla með sætum kartöflum og jalapeno-jógúrtsósu
Fyrir 4
- 1 laukur, saxaður
- 1 lítil sæt kartafla, skorin í bita
- 2 hvítlauksrif, pressuð
- 600 g kjúklingur
- 1 tsk. cumin (ath ekki kúmen)
- 1 tsk. chili-duft
- salt og pipar
- 1/2 búnt kóríander, saxað
- fetaostur í kryddolíu, t.d. frá Mjólku
- 1 dós svartar baunir, vökvi síaður frá
- rifinn ostur
- tortilla
Jalapeno-jógúrtsósa
- 240 ml AB-mjólk, t.d. frá Mjólku
- 1 jalapeno, fræhreinsað og saxað
- safi úr 1 lime
- sjávarsalt
Aðferð:
- Setjið olíu á pönnu. Þegar hún er orðin heit látið lauk og sætar kartöflur þar út á og steikið í um 5 mínútur eða þar til laukurinn er byrjaður að fá gylltan lit. Bætið hvítlauk út á pönnuna og steikið í nokkrar sekúndur. Bætið kjúklingi út á pönnuna og steikið í 5-8 mínútur eða þar til hann er eldaður í gegn.
- Bætið chili-kryddi, cumin og salt og pipar saman við. Setjið 120 ml af vatni út á pönnuna og látið malla þar til vatnið er uppgufað. Hrærið af og til meðan á suðunni stendur. Takið af pönnunni og bætið kóríander og svörtum baunum saman við.
- Raðið blöndunni á tortillurnar. Setjið fetaost og rifinn ost yfir og rúllið upp. Setjið rifinn ost yfir tortillurnar. Setjið inn í ofn og bakið við 180°C í um 15 mínútur eða þar til osturinn hefur bráðnað.
- Gerið jógúrtsósuna með því að blanda AB-mjólk, jalapeno, límónusafa og salti saman í matvinnsluvél og blanda vel saman.