Hér gefur að líta fremur einfaldan og mjög bragðgóðan rétt frá lækninum sem ætti engan að svíkja. Sjálfur segir Ragnar Freyr að rétturinn sé bæði hollur og fljótlegur og það eina sem taki tíma í þessari uppskrift sé að skera niður hráefnið og bíða svo eftir því að súpan sjóði og kjúklingurinn eldist í gegn.
„Kjörið er að kaupa heilan kjúkling fyrir súpuna – þá mætir maður auðveldar þörfum allra í fjölskyldunni – sumir vilja bringu, og aðrir vilja legg. En auðvitað hægt að kaupa leggi, læri eða bringur. Það er auðvitað frjálst val!“
Ítarlegar myndleiðbeiningar er hægt að nálgast á heimasíðu Ragnars: Læknirinn í eldhúsinu
mbl.is/Ragnar Freyr Ingvarsson
Heilsusprengja: Kjúklingasúpa frá Austurlöndum fjær – með marglitum gulrótum, nýrnabaunum, linsoðnum eggjum og kúrbítsnúðlum.
Fyrir sex
- 1 kjúklingur
- 1/2 rauðlaukur
- 2 sítrónugras-stangir
- 5 cm engifer
- 3 hvítlauksrif
- 4 vorlaukar
- 1 rauður chili-pipar
- 6 kaffir-límónublöð
- 3 gulrætur (ein gul, ein appelsínugul og ein fjólublá)
- 1 kúrbítur
- 2 lítrar vatn
- 1 teningur kjúklingakraftur
- 50 ml soya-sósa
- 1 msk. hunang
- 1 dós nýrnabaunir
- 6 egg
- salt og pipar
- meðlæti
- saricha
- aioli
- gulrótaræmur
- kóríander
- rauður chili
Aðferð:
- Byrjið á því að hluta kjúklinginn niður í 12-16 bita, saltið og piprið og brúnið í heitri olíu þangað til kjúklingurinn hefur tekið lit.
- Sneiðið vorlauk, sítrónugras, engifer, chili, hvítlauk og takið til kaffir-límónulaufin.
- Hitið viðbótarolíu í pönnunni og mýkið grænmetið í nokkrar mínútur. Bætið gulrótunum saman við og steikið í tvær til þrjár mínútur til viðbótar.
- Hellið þá vatninu saman við, ásamt soya-sósunni og hunangi. Bætið við teningi af kjúklingakrafti.
- Sjóðið upp súpuna og látið krauma við lágan hita í þrjú kortér.
- Skerið svo kúrbítinn með þessu mandólíns-apparati. Kennið apparatinu um þegar það heppnast ekki nógu vel!
- Bætið kúrbítnum saman við súpuna.
- Skolið baunirnar og bætið í súpuna. Sjóðið áfram í 10 mínútur.
- Linsjóðið egg í öðrum potti.
- Undirbúið meðlætið – blandið matskeið af majónesi saman við 1 teskeið af sriracha-sósu. Hrærið vandlega.
- Skerið gulrót í strimla með flysjara, chili í þunnar sneiðar og vorlaukstoppana í litla strimla.
- Svo er bara að raða súpunni saman; kjúkling í miðjuna, baunir og kúrbít í kring, egg í helmingum, sriracha aoili á toppinn með gulrótaræmum, vorlauk, chili og fullt af ferskum kóríander.
- Þetta var, sko, fyrir líkama og sál.
- Verði ykkur að góðu.
mbl.is/Ragnar Freyr Ingvarsson