Lilja Katrín og Eurovision-snarlið

mbl.is/Kristinn Magnússon

Lilja Katrín Gunn­ars­dótt­ir er einn mesti Eurovisi­on-aðdá­andi sem sög­ur fara af. Við vit­um að hún er alltaf að bralla eitt­hvað sniðugt fyr­ir keppn­ina og því lék okk­ur for­vit­ini á að vita hvað til stæði og hvernig und­ir­bún­ing­ur fyr­ir keppn­ina færi fram á henn­ar heim­ili.

„Ég er rosa­lega mik­ill Eurovisi­on-aðdá­andi og hef­ur það bara stig­magn­ast með ár­un­um. Núna er ég kom­in á það stig að horfa á fram­lög hvers lands um leið og þau lenda á net­inu og er því kom­in með upp­á­halds­lag löngu áður en venju­legt fólk fatt­ar að það er að fara að koma Eurovisi­on.

Ég á nokk­ur upp­á­halds­lög í keppn­inni í ár, sem sem bet­ur fer komust öll áfram í úr­slit, þannig að mig langaði að heiðra þau og senda þeim styrk með því að hafa fjölþjóðlegt Eurovisi­on-partí með rétt­um frá öll­um þess­um lönd­um. En þar sem ég hef ekki heim­sótt öll þessi lönd þá var in­ter­netið besti vin­ur minn og er ég búin að liggja yfir ýms­um upp­skrift­um dægrin löng, með til­heyr­andi munn­vatnsleka og hung­ur­verkj­um.

Ég er hins veg­ar svo vel stödd að ég á „vini“ alls staðar í heimn­um þar sem ég og maður­inn minn rek­um ferðasíðuna Must See in Ice­land og höf­um verið að skipt­ast á nammi við fólk allt frá Ástr­al­íu til Rúm­en­íu, frá Sam­einuðu ar­ab­ísku fursta­dæmun­um til Sviss. Þannig að ég á hauka í horni út um allt og gat því fengið góð ráð frá nammig­rís­un­um mín­um.

Og þess má geta að á mynd­inni er ég í sérsaumuðum ABBA-kjól sem ég saumaði fyr­ir Eurovisi­on árið 2016, þegar ég og besta vin­kona mín, Íris Dögg Pét­urs­dótt­ir, fór­um á Eurovisi­on í fyrsta sinn á æv­inni. Auðvitað þurft­um við að fara í bún­ing!“

mbl.is/​Krist­inn Magnús­son

Lilja Katrín og Eurovision-snarlið

Vista Prenta

Lam­ingt­ons - ÁSTR­ALÍA

Lag í Eurovisi­on: We Got Love - Jessica Mau­boy

Ástr­al­ía er draumalandið mitt og ákvað ég að gera það sem ég geri best, að baka, fyr­ir Ástr­al­ana mína. Hér er á ferð frek­ar þekkt og klass­ískt bakk­elsi, sem lít­ur út eins og skúffukaka en bragðast eins og himna­ríki.

Kaka - hrá­efni:

  • 125 g mjúkt smjör
  • 1 bolli smjör
  • 1 tsk. vanillu­drop­ar
  • 3 egg
  • 1 3/​4 bolli hveiti (sigtað)
  • 1/​2 bolli mjólk

Krem - hrá­efni:

  • 3 1/​2 bolli flór­syk­ur
  • 1/​4 bolli kakó
  • 1 msk. mjúkt smjör
  • 1/​2 bolli sjóðandi heitt vatn
  • 2 boll­ar kó­kos­mjöl

Kaka - aðferð:

Hitið ofn­inn í 180°C og takið fram form sem er sirka 30 sentí­metra langt. Klæðið það með smjörpapp­ír þannig að hann nái aðeins upp á hliðarn­ar. Þessa er auðvitað líka hægt að gera í ofnskúffu en þá þarf að tvö­falda upp­skrift­ina.

Hrærið smjör og syk­ur vel sam­an og bætið síðan vanillu­drop­un­um út í. Bætið eggj­un­um sam­an við, einu í einu. Blandið helm­ingn­um af hveit­inu sam­an við og hrærið, síðan helm­ingn­um að mjólk­inni og því næst rest­inni af hveit­inu og mjólk­inni. Hrærið þar til allt er vel blandað sam­an.

Hellilð deig­inu í formið og passið að það nái út í alla kanta. Bakið í um hálf­tíma. Leyfið kök­unni að kólna í form­inu í sirka kort­er og skellið henni síðan á ílang­an disk. Hyljið hana með viska­stykki og leyfið henni að standa yfir nótt. Skerið kök­una síðan í litla bita.

Krem - aðferð:

Blandið öllu sam­an nema kó­kos­mjöl­inu og hrærið vel sam­an. Stingið hníf í bita af kök­unni og dýfið ofan í kremið. Drissið síðan kó­kos­mjöl­inu yfir og setjið köku­bit­ann á smjörpapp­írsklædd­an bakka. End­ur­takið með alla bit­ana og leyfið krem­inu að storkna áður en þið gúffið í ykk­ur.

mbl.is/​Krist­inn Magnús­son
Prenta

Karelísk baka - FINN­LAND

Lag: Mon­sters - Sa­ara Aalto

Ég eyddi einu sinni þrem­ur vik­um á ferðalagi um Finn­land með finnskri vin­konu minni, og fékk því ekki aðeins að heim­sækja fullt af áhuga­verðum stöðum í Finn­landi held­ur líka að smakka ekta finnsk­an mat. Mér fannst hann reynd­ar ekk­ert spes, nema salmí­akkið sem ég át yfir mig af, en þessi baka fangaði hjarta mitt.

Fyll­ing - hrá­efni:

  • 2 boll­ar vatn
  • 1 bolli brún hrís­grjón (má nota hvít)
  • 2 boll­ar mjólk
  • salt eft­ir smekk

Smjör­blanda - hrá­efni:

  • 100 g smjör (brætt)
  • 3 msk. nýmjólk

Botn - hrá­efni:

  • 1/​2 bolli vatn
  • 1 tsk. salt
  • 1 bolli rúg­mjöl
  • 1/​4 bolli hveiti

Eggja­smjör - hrá­efni:

  • 100 g mjúkt smjör
  • 2 harðsoðin egg (söxuð)
  • smá pip­ar eft­ir smekk (má sleppa)

Fyll­ing - aðferð:

Setjið vatn og hrís­grjón í pott og náið upp suðu. Setjið lok á pott­inn og látið malla yfir lág­um hita í 20 mín­út­ur. Hrærið við og við í blönd­unni.

Bætið mjólk og salti sam­an við og leyfið þessu að malla þar til hrís­grjón­in eru búin að taka í sig alla mjólk­ina og bland­an er dá­sam­lega krímí.

Smjör­blanda - hrá­efni:

Blandið smjöri og mjólk vel sam­an og setjið til hliðar.

Botn - aðferð:

Hitið ofn­inn í 230°C og setjið smjörpapp­ír á ofn­plöt­ur. Blandið öll­um hrá­efn­um sam­an og hnoðið þar til deigið er orðið þétt í sér.

Skiptið deig­inu í 8 til 10 hluta og fletjið hvern hluta út í sporöskju­laga hring. Setjið 2-3 mat­skeiðar af fyll­ingu í miðjuna á hverj­um hring og krumpið síðan hliðarn­ar inn á fyll­ing­una, þannig að það sjá­ist vel í hana í miðjunni.

Penslið deigið með smjör­blönd­unni og setjið inn í ofn. Bakið í um 12-15 mín­út­ur. Takið plöt­una út eft­ir sirka sex mín­út­ur og penslið aft­ur. Þegar bök­un­ar­tím­inn er liðinn takið þið plöt­una úr ofn­in­um og penslið botn­inn aft­ur með smjör­blönd­unni. Leyfið þessu að kólna lítið eitt áður en þetta er borið fram, en þetta er best að mínu mati við stofu­hita.

Eggja­smjör - aðferð:

Ég stein­gleymdi að láta mynda smjörið sem fylg­ir með en það er al­gjör­lega ómiss­andi!

Þeytið smjörið í 3-5 mín­út­ur. Blandið síðan eggj­un­um sam­an við og pip­ar.

mbl.is/​Krist­inn Magnús­son
Prenta


Sænsk­ar kjöt­boll­ur - SVÍÞJÓÐ (DUH!)

Lag: Dance You Off - Benjam­in Ingrosso

Mín ynd­is­legi Eurovisi­on-sálu­fé­lagi, fyrr­nefnd Íris Dögg, á heima í Svíþjóð og því höld­um við á þessu heim­ili alltaf með Svíþjóð svo við höf­um af­sök­un til að koma í heim­sókn. Og hvað er sænsk­ara en kjöt­boll­ur? Nei, ég bara spyr! Og nota bene, þessa upp­skrift er ekk­ert mál að stækka!

Kjöt­boll­ur - hrá­efni:

  • 500 g hakk
  • 1/​4 bolli brauðrasp
  • 1 msk. stein­selja (söxuð)
  • 1/​4 tsk. neg­ull
  • 1/​4 lauk­ur (fínsaxaður)
  • 1 hvít­lauks­geiri (fínsaxaður)
  • 1/​2 tsk. pip­ar
  • 1 tsk. salt
  • 1 tsk. reykt paprikukrydd
  • 1 egg
  • 1 msk. ólífu­olía

Sósa - hrá­efni:

  • 2 msk. smjör
  • 3 msk. hveiti
  • 2 boll­ar nauta- eða kjúk­linga­soð
  • 1 bolli rjómi
  • 1 msk. Worcesters­hire-sósa
  • 1 tsk. hun­angssinn­ep
  • salt og pip­ar eft­ir smekk

Kjöt­boll­ur - hrá­efni:

Blandið öll­um hrá­efn­um vel sam­an í skál. Búið síðan til litl­ar boll­ur úr blönd­unni. Takið fram stóra pönnu og bræðið 1-2 mat­skeiðar af smjöri á henni. Steikið síðan boll­urn­ar yfir meðal­hita þar til þær eru til­bún­ar. Setjið boll­urn­ar á disk eða í skál og búið til sós­una.

Sósa - hrá­efni:

Ekki þrífa bollupönn­una og bræðið smjörið á henni. Blandið síðan hveiti sam­an við og þeytið vel sam­an.

Hellið soðinu var­lega sam­an við og þeytið all­an tím­ann. Hellið síðan rjóm­an­um, Worcesters­hire-sós­unni og sinn­ep­inu sam­an við og þeytið vel. Saltið og piprið.

Leyfið sós­unni að malla þar til hún byrj­ar að þykkna. Dembið síðan boll­un­um ofan í sós­una og leyfið þessu að malla í nokkr­ar mín­út­ur.

mbl.is/​Krist­inn Magnús­son
Prenta


Kjúk­linga­vefja - ÍSRA­EL

Lag: TOY - Netta

Þessi rétt­ur er kannski ekki týpískt ísra­elsk­ur, meira svona inn­blás­inn af Mið-Aust­ur­lönd­um og svo er brauðið í vefj­unni grískt út í gegn. En gott er þetta. Er það ekki það sem skipt­ir máli?

Kjúk­ling­ur - hrá­efni:

  • 600 g kjúk­lingaf­ill­et
  • 1 bolli grísk jóg­úrt
  • 1/​4 bolli edik
  • 2 hvít­lauks­geir­ar (fínt saxaðir)
  • 1 tsk. pip­ar
  • 1 tsk. salt
  • 1 tsk. kar­dimomm­ur
  • 1 tsk. chili-krydd
  • 2 msk. sítr­ónusafi
  • 1/​4 tsk. neg­ull

 Sósa - hrá­efni:

  • 1 bolli tahini
  • 2 hvít­lauks­geir­ar (fínt saxaðir)
  • 1/​4 bolli sítr­ónusafi
  • 4-6 msk. grísk jóg­úrt

Brauð - hrá­efni:

  • 2 1/​2 bolli hveiti
  • 2 tsk. þurr­ger
  • 1 tsk. púður­syk­ur
  • 1 tsk. salt
  • 1 msk. ólífu­olía
  • 3/​4 bolli mjólk
  • 1/​4 bolli vatn

 Kjúk­ling­ur - aðferð:

Hrærið öllu sam­an nema kjúk­lingn­um í stórri skál. Dembið kjúk­lingn­um sam­an við og leyfið þessu að mar­in­er­ast í 6-8 klukku­tíma, helst yfir nótt.

Steikið síðan kjúk­ling­inn á pönnu og setjið til hliðar.

Sósa - hrá­efni:

Blandið öll­um hrá­efn­un­um vel sam­an og setjið til hliðar. Ég verð að taka fram að ég elska tahini en fyr­ir þá sem eru ekki hrifn­ir af því er hægt að nota hvaða sósu sem er, til dæm­is jóg­úrtsósu eða chili-sósu.

Brauð - aðferð:

Hitið mjólk­ina og vatnið lítið eitt. Við vilj­um hafa blönd­una volga, ekki brenn­andi heita. Blandið geri, salti og púður­sykri sam­an við og leyfið þessu að standa í 5-10 mín­út­ur.

Blandið síðan hveiti og ólífu­olíu sam­an við og hnoðið þar til deigið er orðið flott, það má vera pínu­lítið klístrað. Setjið viska­stykki yfir skál­ina og leyfið deig­inu að hef­ast í um klukku­stund.

Penslið pönnu með ólífu­olíu og hitið yfir háum hita. Skiptið deig­inu í 8-10 parta og fletjið hring út úr hverj­um parti. Skellið hverri köku á pönn­una þegar hún er orðin heit og steikið í um 2-3 mín­út­ur á hvorri hlið.

Smyrjið kök­urn­ar síðan með sós­uni, fyllið með upp­á­halds­græn­met­inu ykk­ar og kjúk­lingn­um góða.

mbl.is/​Krist­inn Magnús­son
Prenta

Patatas bra­vas og heima­gert snakk - SPÁNN

Lag: Tu canción - Amaia og Al­fred

Ég bjó á Spáni í smá tíma þegar ég var nítj­án ára og var svo hepp­in að búa með frá­bæru fólki sem kenndi mér alls kyns sniðugt í eld­hús­inu. Mér þykir ofboðslega vænt um Spán og elska að heyra sungið á spænsku þannig að það er mik­ill plús að spænska Eurovisi­on-lagið er svona fal­legt.

Patatas bra­vas (steikt­ar kart­öfl­ur) - hrá­efni:

  • 1 kg kart­öfl­ur
  • Ólífu­olía og nóg af henni
  • 2-3 hvít­lauks­geir­ar (smátt saxaðir)
  • salt og pip­ar

Aðferð:

Skerið kart­öfl­urn­ar í báta. Takið til stóra pönnu og setjið rúm­lega botn­fylli af ólífu­olíu í hana. Hitið ol­í­una yfir meðal­hita. Skellið síðan kart­öflu­bát­un­um í pönn­una og steikið í 20-30 mín­út­ur og hrærið reglu­lega í þeim.

Á meðan kart­öfl­urn­ar eru að steikj­ast hitið þið ofn­inn í 150°C. Þegar kart­öfl­urn­ar eru til­bún­ar setjið þið þær í eld­fast mót og inn í ofn í aðrar 20 mín­út­ur. Þess­ar klikka ekki og dá­sam­legt að bera þær fram með sýrðum rjóma eða sterkri mæj­ónesu.

Heima­gert snakk

Hér er á ferð mjög ein­falt snakk sem felst í því að steikja tortilla-pönnu­kök­ur. Þær er að sjálf­sögðu hægt að kaupa út í búð en ég geri mín­ar eig­in og hér er upp­skrift­in.

Hrá­efni:

  • 3 boll­ar hveiti
  • 1 bolli heitt vatn
  • 4 1/​2 msk. græn­met­isol­ía + meira til að steikja snakkið upp úr
  • sjáv­ar­salt

Aðferð:

Blandið öll­um hrá­efn­un­um vel sam­an þar til deigið er orðið dá­sam­legt og fal­legt. Leyfið því að hvíla í tíu mín­út­ur.

Setjið nokkra dropa af olíu á pönnu og hitið yfir háum hita. Takið smá klípu af deig­inu og fletjið út í hring­laga köku. Deigið er frek­ar teygj­an­legt þannig að ég leik mér líka með það í hönd­un­um og teygi það aðeins til. Við vilj­um að kök­urn­ar séu frek­ar þunn­ar.

Þegar pann­an er orðin mjög heit, er kök­unni skellt á og smá sjáv­ar­salti stráð yfir hana. Kak­an er síðan bökuð í um mín­útu. Síðan er henni snúið við og hún bökuð í um mín­útu í viðbót. Mér finnst best að nota töng til að snúa kök­un­um við. Svona er þetta gert koll af kolli þar til deigið er búið.

Takið ykk­ur síðan pít­sa­hníf í hönd og skerið hverja köku í átta þrí­hyrn­inga. Setjið botn­fylli af olíu í heita pönn­una og steikið hvern þrí­hyrn­ing, aðeins um það bil 30 sek­únd­ur á hvorri hlið. Leggið snakkið síðan á eld­húspapp­ír til að ná úr mestri ol­í­unni. Þetta snakk elska ég með gauca­mole en ég á mjög erfitt að gefa upp­skrift að hinu full­komna lárperumauki. Ástæðan er ein­fald­lega að ég nota bara það sem ég á til, stund­um er það jalapeno, eða hvít­lauk­ur, eða papríka. En auðvitað alltaf avoca­do!

mbl.is/​Krist­inn Magnús­son
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert