Það er ekki laust við að sé ofurlítil sorg í mannskapnum yfir því að hið konunglega brúðkaup sé afstaðið. Við skemmtum okkur nefnilega svo vel að fylgjast með undirbúningnum. En þá er gaman að líta yfir farinn veg og bera saman sögulegar, konunglegar brúðartertur sem bakaðar hafa verið í gegnum árin.
Eins og áður hefur komið fram var það bakarinn Claire Ptak frá Violet bakaríi í London sem bakaði brúðartertu Meghan Markle og Harry prins. En tertan var gerð úr svampbotnum með sítrónubragði og löðrandi í ylliblómasýrópi. Var tertan svo látin standa á þremur gylltum tertudiskum og skreytt með blómum, þá helst bóndarósum og rósum.
Þegar Viktoría krónprinsessa Svíþjóðar gekk að eiga Daniel Westling árið 2010 var boðið upp á 11 hæða tertu og var hvert lag í laginu eins og fjögurra laufa smári.
William prins og Kate Middleton buðu upp á 8 hæða ávaxtatertu í sínu brúðkaupi árið 2011, sem skreytt var með hvítu kremi og flóknu rósaflúri. Það var bakarinn Fiona Cairns sem átti heiðurinn af þeirri brúðartertu.
Díana prinsessa og Charles giftu sig við mikla athöfn árið 1981. Var brúðartertan þeirra bökuð af David Avery, og var hún hvorki meira en minna en 5 metra há, skreytt með skjaldamerki Charles bretaprins, upphafsstöfum Charles og Díönu, ásamt ferskum rósum og orkídeum.
Elísabet Englandsdrottning og spúsi hennar Phillip prins giftu sig árið 1947 og var brúðarterta þeirra 2,7 metrar á hæð. Tertan var á fjórum hæðum og vó heil 226 kíló, skreytt í bak og fyrir með skjaldamerkjum og myndum úr lífi þeirra hjóna. Það var köku og kex fyrirtækið McVitie and Price Ltd. sem bakaði tertuna á sínum tíma.
Þegar Grace Kelly giftist Rainier prins af Mónakó árið 1956 var boðið upp á veglega sex hæða brúðartertu í veislunni. Voru það bakararnir á hinu sögufræga Hôtel de Paris í Mónakó sem gáfu brúðhjónunum tertuna. Kakan var sérlega metnaðarfull en á toppi henni tróndi búr og inni í því kúrðu tvær turtildúfur sem flögruðu upp þegar Rainier prins skar í búrið með sverði. Ekki nóg með það heldur voru litlar brúður í eftirlíkingu þeirra hjóna á tertunni sem dönsuðu í hringi og spiluðu Ave Marie og brúðarmarsinn til skiptis.