Við höfum svolítið verið að vinna með brauðin sem eru bökuð þannig að hægt er að rífa af þeim bita og bita í senn. Þessi brauð henta vel í matarboð og veislur þar sem brauðið er borið fram fyrir hóp fólks sem er ekki feimið að borða með fingrunum. Þetta brauð fellur þó líklega í eftirréttarflokkinn, en deigið er gert úr Grahamskexi, og þar á milli eru lög af Nutella súkkulaðismjöri og sykurpúðum. Búmm! Þetta brauð er alveg fyrirtaks huggunarfæði og með því má sefa sárasta volæðið yfir rigningu síðustu daga… og þeirri sem framundan er.
Geðveikislega gott Nutellabrauð
- 2 og ¼ tsk. þurrger
- ¾ bolli volg mjólk
- ¼ bolli volgt vatn
- 1 egg
- 3 msk. mjúkt smjör
- ¼ bolli sykur
- ¾ bolli mulið Grahamskex
- 3 bollar hveiti
- ½ tsk. salt
- ½ bolli Nutella súkkulaðismjör
- 2 bollar litlir sykurpúðar
Aðferð
- Blandið saman mjólk og vatni í litla skál og stráið gerinu saman við. Hrærið lauslega og leyfið þessu að standa þar til gerið fer að freyða, eða í um 10 mínútur.
- Hellið gerblöndunni í hrærivélaskál og hrærið saman við egg og sykur þar til það er blandað létt saman, eða um 1 mínúta á meðalhraða. Bætið því næst við muldu Grahamskexi og hveiti. Hrærið vel þar til allt hefur blandast vel saman.
- Hreinsið niður með hliðum hrærivélaskálarinnar með sleikju og skiptið yfir í deig-krókinn í hrærivélinni. Hrærið deigið á meðalhraða í 3-4 mínútur. Deigið ætti að festast við botninn á skálinni en losna vel frá hliðunum. Það á að vera örlítið klístrað og mjúkt.
- Notið sleikjuna til að skafa deigið í smurt brauðform. Setjið plastfilmu yfir brauðformið og leyfið deiginu að hefast í um eina klukkustund. Það ætti að tvöfaldast að stærð. Þegar deigið hefur lyft sér má fletja það út í ferhyrning sem er um það bil 50x30 sentímetrar að stærð.
- Mýkið Nutella súkkulaðismjörið með því að stinga því inn í örbylgjuofn í 30 sekúndur á meðalhita, eða yfir vatnsbaði. En gætið þess að ofhita það ekki. Við ætlum bara rétt að mýkja það svo sé auðveldara að smyrja því á deigið.
- Smyrjið þunnu lagi af Nutella á útflett deigið og stráið sykurpúðum rausnarlega yfir.
- Takið beittan hníf og skerið deigið í fimm 10 sentímetra breiðar lengjur. Skerið svo þversum yfir deigið sex sinnum svo eftir eru 30 ferningar sem eru 10x5 sentímetrar að stærð.
- Raðið upp 5 stæðum af deigi með 6 ferningum í hverri stæðu. Raðið stæðunum í smurt brauðform svo að Nutella hliðin snúi hver að annarri. Verið viss um að Nutella hliðin á endabitunum snúi inn í formið en ekki út.
- Hitið ofninn í 175 gráður. Leyfið brauðinu að standa í 20 til 30 mínútur áður en þið stingið því inn í ofn. Bakið í 30-35 mínútur eða þar til deigið hefur belgst út og er orðið fallega gullinbrúnt að lit.
- Takið deigið úr ofninum og leyfið því að kólna í forminu í um það bil 10 mínútur áður en þið náið því úr forminu og setjið á disk. Njótið í góðra vina hópi með köldu glasi af mjólk.
Þetta brauð er alveg fyrirtaks huggunarfæði og með því má sefa sárasta volæðið yfir rigningu síðustu daga… og þeirri sem framundan er.
mbl.is/gatherforbread
Þetta brauð henta vel í matarboð og veislur þar sem brauðið er borið fram fyrir hóp fólks sem er ekki feimið að borða með fingrunum.
mbl.is/gatherforbread