Ef að þetta er ekki eitthvað í gæsapartýið, þá vitum við ekki hvað. Ekkert lát ætlar að verða á vinsældum einhyrninga, sama í hvaða formi það er, matur, drykkur, veggfóður, nefnið það. Þessi drykkur er brjálæðislega litfagur, skemmtilegur og að við tölum nú ekki um einfaldur, en það er alltaf plús. Ef um er að ræða barnaafmæli má halda sig við uppskriftina að neðan. Ef er verið að plana tjúllað gæsapartý má setja skvettu af vodka eða gini til viðbótar, ef gæsin er í stuði.
Einhyrningakokteill í gæsapartýið
- 3 bollar vatn
- matarlitur í bleiku, bláu og fjólubláu
- 2 msk. síróp
- 2 lítrar límonaði, til dæmis Fresca, Sprite eða 7Up
- kökuskraut
Aðferð
- Skiptið vatninu upp í þrjá hluta, einn bolli hver. Setjið vatnið í skálar og litið það með matarlitnum svo ein skál verði með bleiku vatni, ein með bláu og ein með fjólubláu.
- Hellið því næst vatninu í ísmolaform. Leyfið því að frjósa yfir nótt.
- Hellið sírópinu á disk. Stráið kökuskrauti á annan disk. Dýfið brúninni á glösunum fyrst í sírópið og svo í kökuskrautið svo að skrautið sitji fast á glasbrúninni.
- Setjið ísmola í glasið, bleikan, bláan, og fjólubláan í hvert glas.
- Hellið límonaði í glösin og skreytið með sítrónusneið.