Lærði að drekka kaffi á Ítalíu

Dröfn deilir ævintýrum úr eldhúsinu, ásamt ljúffengum uppskriftum á vefsíðu …
Dröfn deilir ævintýrum úr eldhúsinu, ásamt ljúffengum uppskriftum á vefsíðu sinni eldhússögur.com. mbl.is/DröfnVilhjálmsdóttir

Bókasafnsfræðingurinn Dröfn Vilhjálmsdóttir er þekkt fyrir að smeygja sér í svuntuna að lokum langs vinnudags á bókasafninu, og töfra fram ljúffenga rétti í eldhúsinu sínu í Kleifarseli. Hún deilir svo ævintýrum úr eldhúsinu, ásamt ljúffengum uppskriftum á vefsíðu sinni eldhússögur.com. Hafa áreiðanlega margir lagt leið sína þangað og prófað einhverjar af vinsælustu uppskriftunum hennar, á borð við kjúkling með sætum kartöflum og mangósósu, eða kladdaköku með karamellukremi. Það er því ekki úr vegi fyrir Dröfn að svara nokkrum hraðspurningum varðandi mat. 

Kaffi eða te: Ég drekk einn cappuccino á dag. Ég tók upp á því fyrir þremur árum þegar ég dvaldi í Toscana á Ítalíu. Fram að því hafði ég aldrei drukkið kaffi.

Hvað borðaðir þú síðast? Risarækjur í heimatilbúnu klettasalatspestói.

Hin fullkomna máltíð: Sú sem er matreidd af alúð og með ferskum og vönduðum hráefnum og er notið í góðum félagsskap.

Hvað borðar þú alls ekki? Ég borða ekki súrmat og eiginlega engan þorramat. Ég myndi ekki heldur borða fisk eða kjöt sem kemur úr niðursuðudósum. Að sama skapi er ég lítið hrifin af til dæmis tilbúnum frystum mat sem á að hita í örbylgjuofn eða því um líkt. Ég er bara allt of mikil nautnaseggur til þess að borða óspennandi mat.

Avókadó á ristað brauð eða pönnukökur með sírópi? Avókadó á ristað brauð … ásamt rjómaosti og tómötum!

Súpa eða salat? Það er hægt að útbúa ljúffengar súpur en mér finnst eiginlega alltaf vesen að borða þær, skvettast út um allt og maður brennir sig stundum á tungunni! Ég vel því salat. En það verður að vera almennilegt og djúsí!

Uppáhaldsveitingastaðurinn: Það eru svo margir góðir veitingastaðir á landinu og þeim fjölgar stöðugt. Það er því alls ekki auðvelt að velja einn. En við hjónin hlaupum reglulega eftir Ægisíðunni, förum svo í sjósund og endum þessa dásamlegu útivist ekki ósjaldan á veitingahúsi. Þá verður eiginlega alltaf fyrir valinu einhver góður staður á Hlemmi mathöll. 

Besta kaffihúsið: Gamla kaffihúsið í Drafnarfelli. Bakaríið Deig á Seljabrautinni selur hins vegar bestu beyglur og kleinuhringi landsins.

Salt eða sætt? Salt. Með aldrinum þá finnst mér sætmeti freista minna og minna en góður matur meira.

Fiskur eða kjöt? Get ekki gert upp á milli. Ég elska góða steik en íslenski fiskurinn er lostæti.

Hvað setur þú á pizzuna þína? Pizzusósu, rifinn mozzarella-ost, parmaskinku, klettasalat og parmesan-ost. Ég baka hana í pizzaofninum heima og öll fjölskyldan er sammála um að betri pizzu sé ekki hægt að fá.

Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur borðað? Köld gúrkusúpa sem ég pantaði óvart á veitingastað í París.

Matur sem þú gætir ekki lifað án: Mig langar stöðugt í góða osta.

Uppáhaldsdrykkur: Chianti-rauðvín, kók og sódavatn með eplabragði.

Besta snarlið: Góðir ostar, kex og sulta.

Hvað kanntu best að elda? Ég spurði fjölskylduna og hún svaraði lasagna og jólamatinn.

Hvenær eldaðir þú síðast fyrir einhvern? Kvöldmat í gær fyrir fjölskylduna.

Uppáhaldseldhúsáhaldið: Stóri Global-hnífurinn minn, held að ég útbúi varla máltíð án hans.

Besta uppskriftabókin: Matarást eftir Nönnu Rögnvaldar er frábært uppflettirit og sú matreiðslubók sem ég nota oftast.

Sakbitin sæla: Makkarónustykki sem fæst aðeins í tveimur bakaríum í bænum. Lengi vel hélt ég að þetta makkarónuvínarbrauð fengist bara í bakaríi í hinum enda bæjarins og það hentaði ágætlega að þurfa að hafa dálítið fyrir þessari sakbitnu sælu. En svo uppgötvaði ég nýverið að það fæst líka í bakaríi sem er í næsta nágrenni við mig. Það var ákveðinn skellur fyrir sjálfsagann!

Uppáhaldsávöxtur: Mangó og avókadó, hið síðarnefnda er víst flokkað sem ávöxtur en ekki grænmeti.

Besti skyndibitinn: Steikarborgarinn með bearnaise-sósu á Búllunni – það er ekki til betri hamborgari.

Ef þú fengir Vigdísi Finnbogadóttur í mat, hvað myndir þú elda?Við Vigdís deilum afmælisdegi og mig grunar að við deilum líka matarsmekk. Þess vegna myndi ég bjóða henni upp á ofnbakaða þorskhnakka með pistasíusalsa, sætkartöflumús og sojasmjörsósu og eplaböku með vanilluís í eftirrétt. Við myndum svo dreypa á góðu víni yfir matnum og spjalla um barnabækur og matargerð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka