„Hrærivélin hefur staðið með mér í 16 ár“

Svava veit fátt skemmtilegra en að dunda sér í eldhúsinu …
Svava veit fátt skemmtilegra en að dunda sér í eldhúsinu og á vefsíða hennar sér stóran og dyggan fylgjendahóp. mbl.is/SvavaGunnarsdóttir

Svövu Gunnarsdóttur kannast flestir við, en ef ekki þá ættu þeir að kannast við vefsíðu hennar, Ljúfmeti og lekkerheit. Vefsíðan heldur utan um allar eftirlætisuppskriftir Svövu, sem og ævintýri hennar í eldhúsinu. Svava veit fátt skemmtilegra en að dunda sér í eldhúsinu og á vefsíða hennar sér stóran og dyggan fylgjendahóp. Við heyrðum í Svövu og fengum að vita ýmislegt um hennar matarvenjur, grillaðar humarpizzur og djúpsteiktan krabba.

 

Kaffi eða te: Kaffi

Hvað borðaðir þú síðast? Ég fæ mér yfirleitt alltaf það sama í morgunmat á virkum dögum, grænan safa og kaffi. Ég er ekki komin lengra í dag.

Hin full­komna máltíð: Ég er hrifin af smáréttum og veit fátt betra en að sitja í góðum félagsskap með plokkmat langt fram eftir kvöldi.

Hvað borðar þú alls ekki? Súrmatur fer ekki inn fyrir mínar varir.

Avóka­dó á ristað brauð eða pönnu­kök­ur með sírópi? Avókadó á ristuðu súrdeigsbrauði með sítrónusafa, maldonsalti og chili explosion-kryddi hefur vinninginn.

Súpa eða sal­at? Súpa.

Upp­á­haldsveit­ingastaður­inn: Kopar og Osushi.

Besta kaffi­húsið: Það er helst í tengslum við útivist sem ég fer á kaffihús. Þá er Brikk í Hafnarfirði í uppáhaldi, helst eftir góða göngu um Heiðmörk eða Hvaleyrarvatn.

Salt eða sætt? Ég myndi segja að 70% sætt og 30% salt væri fullkomin blanda.

Fisk­ur eða kjöt? Bæði.

Hvað set­ur þú á pizzuna þína? Grilluð humarpizza verður seint toppuð en föstudagspizzurnar heima eru þó síbreytilegar. Síðast fékk ég mér ostapizzu með döðlum og fannst hún æði. 

Hvað er það skrýtn­asta sem þú hef­ur borðað? Ég borðaði djúpsteiktan krabba um daginn, með klónum og öllu. Hann var einn af 15 réttum það kvöldið, sem samanstóðu að mestu af hráum fiski. Stórfurðuleg máltíð í alla staði.

Mat­ur sem þú gæt­ir ekki lifað án: Eins óspennandi og það hljómar þá borða ég svo mikið af Finn Crisp að mér þætti erfitt að sjá eftir því.

Upp­á­haldsdrykk­ur: Ég drekk vatn með öllum mat og kaffi þess á milli. Ef ég fæ mér gos þá er það Sprite Zero. Síðan fæ ég mér léttvín og G&T þegar stemningin býður upp á það.

Besta snarlið: Svartur Primadonna.

Hvað kanntu best að elda? Ætli það sé ekki hversdagsmatur. Ef krakkarnir mínir yrðu spurð myndu þau eflaust segja kjúklingasúpa, grjónagrautur og kjúklingasalat.

Hvenær eldaðir þú síðast fyr­ir ein­hvern? Í gærkvöldi en það er undantekning ef ég elda ekki kvöldmat heima. Ein besta stund dagsins er að setjast niður með krökkunum yfir kvöldmatnum og ræða daginn og veginn. Myndi ekki vilja sleppa því.

Upp­á­haldseld­húsáhaldið: Hrærivélin er mesta hetja eldhússins og hefur staðið með mér í 16 ár án þess að slá feilnótu. Hún fær sjaldan frí. Síðan nota ég Nutribullet á hverjum morgni og myndi rjúka beint út í búð eftir nýjum ef hann gæfi upp öndina.

Besta upp­skrift­abók­in: Ég held mest upp á bók sem ég setti sjálf saman fyrir mörgum árum og er samansafn af uppskriftum sem ég ýmist klippti úr blöðum, skrifaði hjá mér eða prentaði út af netinu. Í dag held ég utan um allar mínar uppskriftir á blogginu. Ætli netið sé ekki bara besta uppskriftabókin?

Sak­bit­in sæla: Freyjuhrís.

Upp­á­haldsávöxt­ur: Hindber, jarðarber og brómber…og helst borin fram með góðri súkkulaðiköku og léttþeyttum rjóma.

Besti skyndi­bit­inn: Ég fæ valkvíða ef ég ætla að kaupa mér skyndibita. Taílenskur og KFC verða þó oftast fyrir valinu.

Ef þú feng­ir Vig­dísi Finn­boga­dótt­ur í mat, hvað mynd­ir þú elda? Ó, hvað ég myndi vanda mig mikið og halda mig við eitthvað klassískt. Humar í forrétt, hægeldað lamb með góðu meðlæti í aðalrétt og súkkulaðimús með léttþeyttum rjóma og ferskum berjum í eftirrétt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka