Sumir dagar eru einfaldlega erfiðari en aðrir og stundum stendur fólk bara alls ekki til stórræða í eldhúsinu. Öðrum er það um megn að þurfa að raða hverju lagi ofan á annað í eldfast mót, hvað þá að kveikja á bakaraofninum til þess að gera lasagna. Þá er gott að eiga uppskrift af einföldu og góðu lasagna sem krefst hvorugs. Það eina sem þarf er að henda öllu í pott, hræra í með sleif og rífa smá ost yfir í lokin. Þetta köllum við lasagna fyrir letihauga á góðri íslensku og það þarf enginn að skammast sín fyrir að elda svoleiðis annað slagið.
Lasagna fyrir letihauga
- 450 gr. pasta
- 1 msk. ólífuolía
- 500 gr. hakk
- 1 stór krukka af pastasósu
- 1 tsk. salt
- 1 tsk. hvítlaukskrydd
- 2 tsk. oregano
- ½ tsk. saxað chili
- 1 bolli rifinn mozzarella ostur
- 1 bolli sýrður rjómi
- 1 bolli rifinn parmesan ostur
Aðferð
- Sjóðið pasta í potti. Gott er að bæta smá salti í vatnið. Eldið þar til pastað er tilbúið „al dente“.
- Hendið hakkinu á pönnu og steikið þar til það er fallega brúnt og tilbúið. Hellið þá pastanu yfir kjötið og sáldrið ólífuolíu yfir.
- Hellið pastasósunni saman við, bætið við salti, hvítlaukskryddi, oregano og söxuðu chili. Hrærið vel. Bætið við rifnum mozzarella osti og sýrðum rjóma.
- Hrærið þetta saman yfir lágum hita þar til osturinn bráðnar og allt er vel blandað saman. Smakkið til og bætið við salti eða pipar ef þarf.
- Rífið parmesan og/eða mozzarella ost yfir og ef þið nennið þá má saxa smá ferskan basil og sáldra yfir. Berið fram í pottinum, heimilislegt og letilegt. Það má líka borða beint upp úr pottinum, við segjum engum frá.
Það þarf enginn að skammast sín fyrir smá eldhúsleti annað slagið.
mbl.is/ohsweetbasil