Svona bakar þú brúðartertu

mbl.is/Valli

Það hefur þó seint stöðvað mig og eins og lesendur Matarvefsins hafa ekki farið varhluta af þykir mér fátt skemmtilegra en að baka og í mínum huga er brúðarterta hinn heilagi kaleikur baksturslistarinnar. Brúðurin var blessunarlega afar raunsæ og hafði litlar sem engar væntingar til kökunnar sem var kannski ágætt því fátt er verra en að sanda ekki undir þeim, hvað þá í brúðkaupi.

Nokkrum mánuðum fyrr hafði mér tekist að fá pláss á námskeiði sem Berglind Hreiðarsdóttir, matarbloggari á Gotteri.is í hjáverkum, hélt í kökugerð. Berglind er lesendum Matarvefsins að góðu kunn enda er hún afburðaflink í bakstri og almennu heimilishaldi. Námskeiðið hafði verið í svokölluðum „drip-kökum“ en það eru háar kökur þar sem súkkulaðikrem lekur niður hliðarnar. Námskeiðið var afskaplega lærdómsríkt og hef ég bakað eins og vindurinn með nokkuð góðum árangri síðan. Brúðarterta er hins vegar allt annars eðlis og ég var meðvituð um að þrátt fyrir að brúðurin hefði engar væntingar til tertunnar þá væru allar líkur á því að einhverjir gestir hefðu eitthvað út á gjörninginn að setja. Ég ákvað því að leita á náðir Berglindar sem góðfúslega féllst á að hjálpa mér.

Eftir miklar vangaveltur var ákveðið að hafa kökuna ekki of stóra heldur gera margar minni. Auðveldara er að flytja minni kökur á milli staða auk þess sem þær eru í alla staði meðfærilegri sem minnkar líkurnar á mistökum töluvert.

Við höfðum því neðri kökuna 20 sentímetra í þvermál og þá efri 15 sentímetra. Ég viðurkenni að ég var full efasemda en Berglind var handviss.

Móðir brúðarinnar sá um að baka sjálfar kökurnar. Þar sem ég er ekki flink í að baka frá grunni og reyndar töluvert mótfallin því, nota ég alltaf tilbúin kökumix og sjálf notar Berglind alltaf Betty Crocker sem hún bragðbætir með súkkulaði Royal-búðingi.

Baksturinn var upp á tíu og það voru ákaflega fallegar og þéttar kökur sem mættu í hús uppi í höfuðstöðvar Morgunblaðsins daginn fyrir brúðkaupið.

Fyrsta skrefið var að búa til smjörkremið og þar studdist ég við mína eigin uppskrift sem inniheldur töluvert minna af sykri og slatta af rjómaosti. Töfrainnihaldið er svo kakómalt sem mér finnst gera gæfumuninn.

Berglind var fljót að benda á að smjörkremið mitt væri helst til of lint til að kakan héldi sér og því var búið til mun sykurmeira og stífara krem. Var því sprautað meðfram jaðrinum – í fallegan hring og síðan fylltum við upp í með súkkulaðikreminu. Með þessum hætti heldur kakan sér mun betur.

Þegar búið var að setja krem á alla botnana og raða kökunum saman var komið að því að hjúpa þær.

Notað var hvítt smjörkrem frá Betty. Hér skiptir miklu máli að vera með góða spaða og smyrja kreminu jafnt á en passa að hafa lagið ekki of þykkt þar sem við viljum að kakan sjáist í gegn.

Síðan var kremið haft aðeins þykkara að ofan og passað upp á að hafa yfirborðið slétt og fallegt. Berglind sá um það enda afburðarflink í kremásetningu.

Skreytingarnar voru afar einfaldar en ég notaði sömu blóm og voru í brúðarvendinum. Mér fannst það kallast fallega á. Svo var ég með misháa kökudiska og í heildina verð ég að viðurkenna að þetta var eiginlega bara alveg geggjað. Ég gekk að minnsta kosti um með myndirnar í viku á eftir og sýndi öllum sem á vegi mínum urðu.

Því er skemmst frá að segja að kakan vakti stormandi lukku í brúðkaupinu, brúðurin grét, tengdamamma hafði sjaldan smakkað betri köku og fyrir mér var klappað. Meira er víst ekki hægt að biðja um og því segi ég bara, takk Berglind!

Súkkulaðismjörkrem

  • 500 g smjör við stofuhita
  • 500 g flórsykur
  • 300 g rjómaostur
  • 4 msk. kakó
  • 4 msk. kakómalt (smakkið til)
  • 2 msk. kaffi

Aðferð:

Þeytið smjörið vel þar til það er orðið ægilega fínt og loftkennt. Bætið þá flórsykrinum og rjómaostinum saman við. Því næst kakói, kakómalti og kaffi saman við. Smakkið til.

mbl.is/Valli
Berglind Hreiðarsdóttir sést hér hjúpa tveggja hæða kökuna.
Berglind Hreiðarsdóttir sést hér hjúpa tveggja hæða kökuna. Morgunblaðið/ÞS
Morgunblaðið/ÞS
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka