Kókos og súkkulaði vekur oftar en ekki mikla lukku hjá flestum og það ekki að ástæðulausu, enda ná þessi tvö hráefni einkar vel saman. Hér er uppskrift að bragðgóðum Bounty-stöngum sem fengin er úr bókinni „Sukkerfri børnefest“ en í þeirri bók er öllum hvítum sykri skipt út með öðrum og hollari hráefnum. Og til að setja punktinn yfir i-ið má rífa appelsínubörk, kanil, piparmyntu, vanillu eða lakkrís yfir, allt eftir eigin smekk.
Bragðgóðir Bounty-bitar (12 stk.)
- 25 g mjúk kókosolía
- 100 g kókoskrem – þykka lagið á kókosmjólkinni úr dósinni. Passið að hrista ekki dósina og setjið hana jafnvel inn í ísskáp klukkutíma áður en hafist er handa, þá ætti „kremið“ að liggja sem efsta lag þegar dósin er opnuð.
- 150 g kókosmjöl
- 30-40 g kókossykur (má nota venjulegan sykur)
Skraut:
- 100 g dökkt súkkulaði
- Kókos, lakkrísduft eða ber
Aðferð:
- Kókoskreminu (þykka lagið af kókosmjólkinni úr dósinni), kókosolíu, kókosmjöli og sykri er blandað saman í skál. Auðveldast er að gera það með höndunum.
- Þegar allt hefur blandast vel saman, og er enn þá dálítið klístrað eru mótaðir 12 litlir bitar um 5 cm langir.
- Setjið í kæli í tvo tíma, eða þar til þeir eru þéttir í sér.
- Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði. Vatnið í pottinum má ná upp að helmingnum af skálinni en passa að það fari ekki að sjóða. Passið líka að það komist ekki vatn í súkkulaðið.
- Veltið kókos-stöngunum upp úr súkkulaðinu og setjið á bökunarpappír.
- Dreifið kókos eða öðru sem hugurinn girnist yfir bitana til skrauts.
- Ef bitarnir eru geymdir í kæli geymast þeir í sirka viku – þ.e.a.s. ef þeir eru ekki borðaðir strax.