Frábær fiskréttur úr smiðju Gísla Auðunns

Sólkoli með smjörsósu.
Sólkoli með smjörsósu. Ásdís Ásgeirsdóttir

Gísli Auðunn á Slippnum í Vestmannaeyjum er þekktur fyrir óvenulega og frumlega nálgun á hráefni. Hann gefur okkur hér uppskrift af sólkola með smjörsósu en vissulega er hægt að nota hvaða fisk sem er enda allt gott með smjörsósu. 

Sólkoli með smjörsósu

Fyrir 4

Sólkoli

  • 4 litlir sólkolar, einn á mann
  • smá hvítlaukur
  • timían
  • góð smjörklípa
  • salt

Verkið sólkolann þannig að beinagarðurinn er tekinn innan úr en halinn og hausinn látnir vera. Saltið því næst fiskinn og steikið á pönnu upp úr olíu, smá hvítlauk og timían. Bætið svo smjöri á pönnuna þar til það er orðið gyllt. Setjið fiskinn inn í 180°C ofn í ca. 6-8 mínútur eftir þykkt.

Smjörsósa

  • 100 ml fiskisoð (má sleppa)
  • 100 ml hvítvín
  • 250 g smjör
  • smá salt
  • sítrónusafi

Sjóðið fiskisoð og hvítvín niður í síróp, skerið smjör í búta og bætið við einum bita í einu með töfrasprota. Kryddið með salti og sítrónu.

Strandarjurtir

Hægt er nota mismunandi strandarjurtir sem vaxa á ströndum landsins, fjöruarfa, blálilju og annað slíkt. Gufusjóðið í 10 sekúndur og kryddið með góðri olíu, ediki og salti.

Hvannarolía

  • 200 g fersk hvönn
  • 200 ml grænmetisolía (bragðlaus)

Setjið í blandara og vinnið í ca. 10 mínútur. Sigtið í gegnum fínt sigti.

Berið fram með góðum kartöflum og pikkluðum lauki.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert