Það er eitthvað við bökur sem er bara svo ljúffengt, sérstaklega þegar hráefnið er að „tala saman“. Þessi er auðgerð með fullt af ferskum tómötum, mozzarella-osti og basilikum.
Tómatbaka með mozzarella og basilikum (fyrir 4)
Tertudeig:
100 g smjör
175 g hveiti
1 dl sesamfræ
¼ tsk. salt
1 eggjarauða
1 msk. kalt vatn
Fylling:
- 2 dl mascarpone eða sýrður rjómi
- ¾ tsk. salt
- Pipar
- 300 g cherry-tómatar, fallegt að hafa blandaða liti
- 150 g míni mozzarella
- Fersk basilika
- 2 msk. ólífuolía
- Salt og pipar
Aðferð:
- Skerið smjörið í litla teninga. Klípið smjörið saman við hveitið ásamt sesamfræunum og saltinu, þar til þetta líkist rifnum osti. Bætið þá eggjarauðu og vatni saman við. Leyfið deiginu að hvíla í 30 mínútur inni í ísskáp.
- Smyrjið tertuform og klæðið formið að innan (sirka 26 cm form). Bakið botninn í ca. 20 mínútur við 180°, þar til það verður gyllt og bakað í gegn. Leyfið botninum að kólna.
- Kryddið mascarpone-ostinn með salti og pipar og smyrjið honum á tertubotninn. Skerið tómatana til helminga og dreifið yfir ásamt mozzarella-ostinum og basilikunni til síðast. Dreypið smá ólífuolíu og saltið og piprið eftir smekk.