Fastar í 16-18 tíma á dag

Greta Salóme er góður kokkur.
Greta Salóme er góður kokkur.

Greta Salóme er þessa dagana á fullu við að undirbúa tónleikasýninguna Halloween Horror Show sem sló eftirminnilega í gegn í fyrra. Á tónleikunum koma meðal annars fram Magni, Birgitta Haukdal, Stebbi Jak, Dagur Sigurðsson, Ólafur Egill ásamt auðvitað Gretu Salóme . Það er að venju í miklu að snúast hjá Gretu en við fengum engu að síður að skella henni í smá yfirheyrslu.

Hvernig byrjar þú daginn?

Ég fasta nánast undantekningarlaust fram yfir hádegi þannig að ég byrja aldrei á að fá mér morgunmat. Yfirleitt sest ég við eldhúseyjuna mína og tek mig til fyrir daginn og hlusta á eitthvert gott podcast.

Uppáhaldsmaturinn þinn?

Súkkulaði er án efa það besta sem ég fæ þó að ég reyni að borða hollt. Ef það er eitthvað sem ég elska að borða þá er það Nóa Síríus súkkulaði með saltlakkrís. Það er ekkert betra.

Uppáhaldsveitingahús?

Ég held mikið upp á Sumac núna. Er búin að fara þangað tvisvar á stuttum tíma og finnst maturinn þar alveg geggjaður. Annars finnst mér Grillmarkaðurinn alltaf algjör snilld, sérstaklega þar sem ég er rosaleg kjötæta og elska góða steik.

Eldarðu mikið?

Já, ég elda mjög mikið. Ég ferðast nánast helminginn af árinu og spila og þegar ég er í burtu sakna ég mest að elda sjálf heima hjá mér. Þannig að þegar ég er heima þá nýt ég þess að vera í eldhúsinu og elda matinn minn sjálf...og sérstaklega að vita hvað er í honum.

Mér finnst langskemmtilegast að elda fyrir fjölskyldu mína og vini og elska að fá fólk í mat.

Stærsta eldhúsklúðrið?

Úff þau eru svo mörg en ég held að mín helstu mistök séu yfirleitt að gera of mikið. Ég þoli ekki tilhugsunina um að það sé ekki nóg að borða fyrir matargestina mína þannig að ég enda alltaf á að elda fyrir tvöfalt fleiri en eru í mat og sit svo uppi með afganga fyrir heilt bæjarfélag.

Ef þú værir að fara á eyðieyju...?

Ég myndi taka með mér ótakmarkað magn af pepsi maxi vegna þess að ég er sennilega einn forfallnasti pepsi max (pax eins og við köllum það) fíkill fyrr og síðar. Ég myndi þá sleppa við fráhvarfseinkennin og afvötnunina. Svo mynd ég taka Nóa vin minn Síríus með mér í ýmsum birtingarmyndum og á endanum myndi ég taka með mér lífræn egg til að fá nóg af próteini. Hljómar eins og fullkomlega balanserað mataræði; pepsi max, súkkulaði og egg!

Hvað leggur þú áherslu á í mataræðinu?

Akkúrat núna er ég á svokölluðu ketómataræði sem er lágkolvetnamataræði. Ég fasta yfirleitt 16-18 tíma á dag og legg því mikið upp úr því að fá næringarríka og góða máltíð þegar ég brýt föstuna. Ég reyni núna að fá nóg af hollri fitu og próteinum en svo finnst mér mikilvægt að maturinn sé góður á bragðið. Ég nenni ekki að drekka próteinduft og hreinar eggjahvítur í hvert mál og ég reyni að elda mat sem ég nýt þess að borða þó að hann sé hollur.

Stærsta freistingin? Súkkulaði...allan daginn súkkulaði.

Hvað ertu að spá í að bjóða upp á í næsta matarboði?

Ég elska að elda fisk og finnst fátt betra en góður sjávarréttur. Mig er búið að langa í grillaðan humar í allt sumar en ekki haft tíma til að gera það. Ég held að grillaður humar með klikkuðu salati verði fyrir valinu næst.

Fyrirmynd í eldhúsinu? Mamma mín hefur alltaf verið mjög dugleg í eldhúsinu þrátt fyrir misjafna útkomu (sorry mamma, ég elska þig samt). Hún er samt afbragðsbakari og það eru nokkrar uppskriftir sem eru orðnar algjörlega klassískar frá mömmu. En Það eru samverustundirnar í eldhúsinu sem ég elska og tek með mér frá mínu uppvaxtarheimili og þar á mamma allt hrós skilið fyrir að gera alltaf pláss við matarborðið, sama hvern ber að, bjóða alla velkomna...og aldrei láta matinn klárast.

Matardyntir?

Ég klára eiginlega aldrei að drekka úr glasi eða flösku og skil alltaf eftir á botninum. Ég get líka aldrei hellt út í hálfkláraðan drykk heldur þarf ég alltaf að hella restinni fyrst og hella svo upp á nýtt.

Er eitthvað sem þig dreymir um að mastera í eldhúsinu?

Ég er fiðluleikari og er alltaf stressuð um puttana á mér þegar ég er að skera niður grænmeti o.s.frv. Ég vær svo mikið til í að mastera listina að skera hratt án þess að skera í fingurna. Það myndi minnka stress-levelinn í eldhúsinu alveg svakalega stundum.

Uppáhaldseldhúsáhald? Salatgafflarnir sem pabbi minn gerði úr hreindýrahornum og gaf mér.

Hvað dreymir þig um að eignast í eldhúsið?

Mig langar alltaf í KitchenAid-hrærivél, þó ég viti að ég á örugglega ekki eftir að nota hana mikið þar sem ég hef aldrei tíma til að baka. Það er bara eitthvað svo heimilislegt við að eiga eina svoleiðis.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka