Hvort sem þú bakar þessa fyrir heimilisfólkið, bekkjarafmælið eða mætir með í vinnuna, þá ertu alltaf að gleðja. Mjúkir gulrótarsnúðar munu seint klikka.
Snúðar sem vekja alls staðar lukku
- 10 g ger
- 2 dl mjólk
- 50 g smjör
- 1 egg
- 1 tsk hafsalt
- 50 g rúgmjöl
- 150 g heilhveiti
- 150-200 g hveiti
Fylling:
- 4 gulrætur, soðnar þar til mjúkar
- 40 g smjör
- 1 daðla eða 1 msk hunang
- 1 tsk kanill
- 1 egg, pískað til að pensla á snúðana
Aðferð:
- Deig: Stráið geri yfir mjólk í skál og hrærið í þar til gerið er uppleyst. Bræðið smjör í potti og bætið út í ásamt eggi, salti og rúgmjöli. Hrærið vel saman og bætið því næst hveilhveiti og hveiti smám saman út í á meðan hrært er í deiginu. Deigið á að vera mjúkt en ekki of klístrað. Breiðið hreint viskastykki yfir skálina og leyfið deiginu að taka sig í klukkutíma.
- Fylling: Sjóðið gulræturnar þar til þær eru linar og setjið í blandara ásamt öðrum hráefnum. Blandið vel saman.
- Samsetning: Rúllið deiginu út í ferning, sirka ½ cm á þykktina, og smyrjið deigið með fyllingunni. Leggið deigið saman til helminga og skerið í sirka 5 cm strimla sem síðan skerast til helminga og snúast hvor upp á annan (sjá mynd). Leyfið snúðunum að hefast á bökunarplötu á bökunarpappír í 15 mínútur. Penslið snúðana með pískuðu eggi og bakið við 175° á blæstri í 16-20 mínútur.