Parmesankjúklingur fylltur með mozzarellaosti

Mögulega einn girnilegasti kjúklingaréttur síðari ára.
Mögulega einn girnilegasti kjúklingaréttur síðari ára. mbl.is/Delish (.com)

Haldið ykkur fast því hér kemur uppskrift sem er ekki bara líkleg til vinsælda heldur er nánast gefið að hún muni rústa kvöldverðarkeppninni. Hér erum við að tala um löðrandi ost, stökka skorpu og gómsætan kjúkling.

Parmesankjúklingur fylltur með mozzarellaosti

  • 500 g skinnlausar kjúklingabringur
  • 30 g mozzarellaostur
  • sjávarsalt
  • nýmalaður pipar
  • 1 bolli hveiti
  • 3 egg (þeytt)
  • 1 bolli Panko-brauðrasp
  • 1 tsk þurrkað óreganó
  • ½ tsk hvítlauksduft
  • ½ bolli rifinn parmesanostur
  • ólífuolía til að steikja úr
  • 2 bollar marinarasósa
  • 1/4 bolli smátt skorin basilíka
  • 2 msk söxuð steinselja

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 220°C. Skerið djúpar rifur í bringurnar, troðið mozzarella í opið og þrýstið síðan vel saman. Sáldrið salti og pipar yfir bringurnar.
  2. Setjið egg, hveiti og brauðrasp í þrjár grunnar skálar (hvert hráefni í sína skál). Hrærið hvílauksdufti, óreganói, helmingnum af parmesanostinum og ½ tsk af salti saman við brauðraspið. Veltið kjúklingabringunum upp úr hveitinu, síðan upp úr þeyttum eggjunum og loks upp úr krydduðu brauðraspinu. Gætið þess að raspið hylji bringuna vel.
  3. Hitið þunnt lag af olíu á stórri pönnu sem þolir að fara inn í ofn og steikið bringurnar við meðalhita þar til þær eru fallega brúnar (u.þ.b. 4 mín. á hvorri hlið). Hellið marinasósunni í kringum bringurnar og dreifið basilíkunni yfir. Slökkvið undir pönnunni og dreifið loks parmesanostinum yfir bringurnar.
  4. Setjið pönnuna í ofninn og bakið þar til bringurnar eru gegneldaðar, u.þ.b. 20 mínútur. Dreifið steinseljunni yfir og berið fram.  
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert