Sunnudagslamb sem engan svíkur

mbl.is/Fox Valley Foodie (com)

Hefðbundið lambalæri hefur verið uppáhaldsmatur Íslendinga áratugum saman. Enda ekki skrítið, íslenskt lambakjöt er sennilega eitthvert besta kjöt sem völ er á, ferskt af fjallinu þar sem íslenskar kryddjurtir hafa verið aðalfæðan. Lífræn ræktun eins og hún gerist best.

Sítróna og límóna gefa þessu læri sérstakan keim án þess að um byltingarkennda breytingu sé að ræða; þetta er bara aðeins annað bragð en venjulega. Best er auðvitað að nota ferskt rósmarín en ef það er ekki til má nota þurrkað og strá því yfir lærið. Meðlæti fer allt eftir smekk en ég myndi leggja til kartöflugratín, mikið grænt salat og milt rauðvín sem hentar þessu bragði. Og auðvitað vatn fyrir þá sem ekki vilja vín.

Sunnudagslamb sem engan svíkur

Fyrir sex
  • 1 meðalstórt lambalæri
  • salt
  • pipar
  • 1 sítróna
  • 1 límóna
  • 5 hvítlauksrif (fer eftir smekk)
  • ferskt rósmarín
  • olía til penslunar

1. Þerrið lambalærið vel og skerið af því alla umframfitu. Kryddið með salti og nýmöluðum pipar.

2. Skerið sítrónuna og límónuna í tvennt og nuddið safanum vel inn í lambalærið. Notið báða helmingana og puttana til að safinn smjúgi vel inn í kjötið.

3. Skerið hvítlauksrifin í þunnar sneiðar. Skerið rifur hér og þar í lærið og stingið hvítlauknum inn í kjötið. Vefjið fersku rósmaríni utan um lærið og setjið það í ofnskúffu sem pensluð hefur verið með olíu. Penslið lærið einnig með olíu.

4. Steikið lærið fyrst við 190–200 gráður í 15 mínútur. Lækkið þá hitann í 180 gráður og steikið áfram. Best er að snúa lærinu við á korters fresti og pensla það með olíunni af og til. Steikingartíminn fer eftir stærð en yfirleitt þarf lærið a.m.k. 1½–2 tíma í ofninum til að verða gegnsteikt. Svo er líka smekksatriði hvað fólk vill hafa það mikið steikt.

Athugið - þetta er hefðbundna útgáfan en svo er einnig hægt að úrbeina lærið eins og sést á myndinni. 

mbl.is/Fox Valley Foodie (com)
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka