Hver elskar ekki góða kjúklingauppskrift, hvað þá ef hún er lágkolvetna en engu að síður alveg syndsamlega góð? Eiginlega bara fullkomin á degi sem þessum.
Uppskriftin kemur úr smiðju Einn, tveir og elda og því gulltryggt að um gourmet-uppskrift er að ræða.
Lágkolvetna hunangskjúklingur með ofnbökuðu graskeri
Fyrir tvo, 40 mínútur
- 400 gr. úrbeinuð kjúklingalæri
- 300 gr. grasker (butternut)
- 50 gr. spínat
- 20 ml ólífuolía
- 10 ml hunang
- 20 ml sojasósa
- 1 hvítlauksgeiri
- 10 gr. saxað engifer
- salt og pipar
Aðferð:
- Hitið ofninn í 200°C. Blandið saman í skál olíunni, hunanginu, sojasósunni, söxuðum hvítlauksgeiranum, saxaða engiferinu og smá salti og pipar. Setjið kjúklingalærin í marineringuna og leyfið honum að marinerast í 10 mínútur.
- Færið kjúklinginn í eldfast mót og bakið í um það bil 30 mínútur eða þar til hann er fulleldaður.
- Skerið graskerið í bita og setjið í eldfast mót, kryddið með salti og pipar eftir smekk og dreifið ólífuolíu yfir. Bakið í ofninum í 20-30 mínútur eða þar til bitarnir eru orðnir mjúkir í gegn og stökkir að utan.
- Berið kjúklinginn fram ásamt graskerinu og spínatinu, gott er að hafa kalda sósu með eins og t.d. kalda hvítlaukssósu.