„Um daginn bakaði ég þessa skúffuköku eftir uppskrift frá Mitt Kök sem var æðisleg og myndi sóma sér vel með helgarkaffinu. Ég má því til með að mæla með henni á þessum rigningardegi.“
Skúffukaka
- 225 g smjör
- 2 dl mjólk
- 5 egg
- 4 ½ dl sykur
- 1 ½ msk. vanillusykur
- 1 ¼ dl kakó
- 3 tsk. lyftiduft
- 6 dl hveiti
Glassúr
- 75 g smjör
- ¾ dl sterkt kaffi
- ½ dl kakó
- 1 ½ msk. vanillusykur
- 5 dl flórsykur
Yfir kökuna
- 1 dl kókosmjöl
Hitið ofninn í 175° og klæðið ofnskúffu með bökunarpappír.
Bræðið smjörið, blandið mjólkinni saman við og leggið til hliðar. Hrærið egg og sykur saman þar til blandan er ljós og létt. Sigtið vanillusykur, kakó, lyftiduft og hveiti út í eggja- og sykurblönduna. Bætið smjör- og mjólkurblöndunni saman við og hrærið saman í slétt deig. Setjið deigið í formið og bakið í miðjum ofni í um 20 mínútur.
Glassúr: Bræðið smjörið í potti og hrærið kaffi, kakó, vanillusykur og flórsykur út í. Látið mesta hitann rjúka úr kökunni áður en glassúrinn er settur yfir (best að setja hann yfir kökuna þegar hún er volg). Endið á að strá kókosmjöli yfir.