Bessastaðakökur voru bakaðar á Bessastöðum í tíð Vigdísar Finnbogadóttur. Vigdís segir kökurnar hafa verið bakaðar í sinni fjölskyldu frá því hún man eftir sér. Vigdís segir þær ættaðar frá Jakobínu Thomsen, konu Gríms Thomsen þegar hann bjó á Bessastöðum á síðari hluta 19. aldar.
„Ég tók með mér þessa uppskrift þegar ég flutti til Bessastaða og þær voru alla mína tíð bakaðar þar, reyndar allan ársins hring, og bornar fram í silfurskál (eins og konfekt) með kaffi (og aðeins þær sem bakkelsi) öllum þeim sem komu í stutt viðtöl eða með einhver erindi, – það var alltaf öllum boðið kaffi að gömlum sveitasið,“ sagði Vigdís. Mbl. 19.12.2013
Þessar yndislegu smjörkökur hreinlega bráðna í munninum og eru algjörlega fyrirhafnarinnar virði. Ekta fullorðinskökur.
Það er Sirrý í Salt eldhús sem deilir þessari uppskrift sem hún segir að séu sívinsælar og algjörlega frábærar.
Heimasíðu Salt eldhúss er hægt að nálgast HÉR.
Bessastaðakökurnar
Í uppskriftinni er hreinsað smjör, sem áður og jafnvel enn er gjarnan kallar að „skíra“ smjörið, þá er mjólkin hreinsuð frá smjörinu og kökurnar renna ekki út við baksturinn.
Bræðið smjörið við hægan hita, hellið því í skál og látið síðan storkna inn í ískáp. Takið smjörhleifinn úr skálinni og skafið hvíta mjúka partinn (mjólkurprótín oft kölluð syrjan) ofan af, sem sagt það sem var botnfall þegar smjörið storknaði, við notum þetta ekki.
Setjið hveiti og flórsykur í skál og blandið saman, saxið hreina smjörið niður í litla bita og hnoðið því saman við þar til þetta verður samfellt deig. Skiptið deiginu í 4 parta og rúllið upp í pylsur, þvermál má vera u.þ.b. eins og 10 krónu peningur. Kælið deigið í 1-2 klst.
Hitið ofninn í 180°C (170°C á blástur) og þekið 2 bökunarplötur með bökunarpappír. Skerið deigið niður í örþunnar sneiðar og raðið þeim á plötuna. Setjið örlítinn dropa af eggjarauðu ofan á hverja köku og sáldrið söxuðum möndlum eða hnetum ofan á hann. Bakið í um 15 mínútur.
Kökurnar eiga ekki að taka mikinn lit, þær eiga að vera næstum alveg hvítar.