Rækjur eru vinsæll forréttur hjá mörgum, enda hægt að útfæra á svo marga vegu. Slíkir réttir slá oftast nær alltaf í gegn. Hér er uppskrift að einum slíkum með heimagerðu dill-majónesi. Upplagður réttur fyrir fjóra og tekur enga stund að framreiða svo lengi sem rækjurnar eru þiðnaðar.
Rækjuforréttur með heimagerðu dill-majó
- 2 eggjarauður
- 1 tsk. salt
- 1 msk. epla- eða hvítvínsedik
- 2,5 dl sólblómaolía
- 1 búnt dill
- 500 g rækjur
- 8 sneiðar af góðu súrdeigsbrauði
- Sítróna
- Salt og pipar
Aðferð:
- Pískið eggjarauðurnar, salt og edik saman.
- Bætið olíunni út í mjög rólega (jafnvel bara nokkra dropa til að byrja með) og hrærið vel í á meðan. Passið að setja olíuna ekki of hratt út í því þá getur majónesið skilið sig – og þá er best að byrja upp á nýtt. Bætið fínt söxuðu dilli út í og smakkið til með salti, pipar og sítrónusafa.
- Hreinsið rækjurnar.
- Berið fram rækjur á smurðu brauði, jafnvel ristuðu og smurðu með majónesi. Saltið, piprið og kreistið sítrónu yfir rækjurnar (ef vill) og því næst dillmajónes þar ofan á.