Borðar hákarl í morgunmat á Þorláksmessu

Ólíver Þorsteinsson, rithöfundur með meiru.
Ólíver Þorsteinsson, rithöfundur með meiru. Kristinn Magnússon

Ólíver Þorsteinsson gaf á dögunum út sína fyrstu barnabók, Leitina að jólakettinum, sem hefur fengið frábærar viðtökur sem kemur ekki á óvart - ekki síst í ljósi þess að rithöfundirnn er með her lítilla aðstoðarmanna sem hann prufar hugmyndir sínar á. Ólíver, sem er 22 ára gamall, starfar á leikskóla þar sem nemendur hans njóta góðs af hugmyndaauðgi hans og eru dýrmætir aðstoðarmenn að hans sögn. Við lögðum nokkrar grundvallarspurningar fyrir Ólíver og komumst að ýmsu, meðal annars því að hann borðar mjög svo óvenjulegan morgunmat á Þorláksmessu.

Hvar borðar þú jólamatinn í ár? Ég borða jólamatinn í ár heima hjá mér eins og ég hef gert allt mitt líf. Ég er voða heimakær, og sérstaklega um jólin. Ég get ekki hugsað mér að vera annars staðar um jólin.

Hvað er í matinn? Mamma gerir alltaf humar í forrétt og svo í aðalrétt er kjöt og gómsætt meðlæti. Fjölskyldan hefur alltaf purusteik en ég krefst þess að fá hamborgarhrygg líka, þannig að það er alltaf nóg af afgöngum.

Hvaða matar gætir þú ekki verið án á jólunum? Ég gæti aldrei verið án hamborgarhryggs og laufabrauðs.

Einhver skrítin jólamatarhefð? Ég og bróðir minn fáum okkur hákarl í morgunmat á Þorláksmessu. Fólk telur það skrýtið, en ég botna ekkert í því.

Uppáhaldssmákökur og af hverju? Erfitt að velja á milli. En ef ég þurfti að velja sigurvegara myndi ég velja mömmukökur. Amma Dolla gerir bestu mömmukökurnar og alltaf þegar ég fæ þær kemst ég í jólafíling og það er enginn betri fílingur en jólafílingurinn.

Bakar þú fyrir jólin? Nei, ég hef verið óduglegur að baka fyrir jólin, ætla mér alltaf að taka upp á því. Tek baksturinn næstu jól með stæl. Hef það á tilfinningunni að það muni enda í ringulreið en maður verður að reyna.

Hvernig er undirbúningur jólanna á leikskólanum? Við byrjum alltaf í lok nóvember á piparkökubakstri, svo dettum við í jólaþema. Krakkarnir gera jólasveina úr pappa og jólatré úr könglum og alls konar. Svo setjum við upp jólatréð með krökkunum og leyfum þeim að skreyta. Jólatónlistin er ávallt partur af undirbúningnum, og krakkarnir fá ekki nóg af þessum frábæru lögum.

Eru krakkarnir spenntir fyrir bókinni þinni? Já, ég las bókina fyrir þau um daginn og fékk hlýjar móttökur. Eins og allir vita eru krakkar hræðilega hreinskilnir sem er reyndar bara frábært í flestum tilfellum. Krakkarnir tóku vel í söguna og lærðu margt af henni. Svo sagði einn krakki að hann ætlaði að skrifa bók eins og ég þegar hann væri stór, það hlýjaði hjartanu.

Hvernig er jólabókaflóðið búið að ganga? Það er mikið úrval af barnabókum og salan hefur gengið ágætlega. En þetta er bara mín fyrsta bók og hefur alveg gengið vel miðað við það. Vonandi kaupa allir þessa bók á síðustu stundu eða milli jóla og nýárs.

Er skemmtilegt að gefa út bók? Það gerist ekki skemmtilegra. Þetta hefur verið langþráður draumur minn síðan ég man eftir mér. Þetta er allt nýtt fyrir mér og ég hef lært margt af þessu. En skemmtilegast af þessu öllu var að fá bókina fyrst í hendur, það var sko upplifun sem ég gleymi aldrei. Ég vona bara að þessi bók veki upp jólatilfinningu og kenni börnum og fullorðnum að dæma ekki bók af kápunni. Við erum fljót að dæma, en ef við myndum gefa okkur tíma að kynnast betur þá væri heimurinn aðeins betri staður.

Bókin heitir Leitin að jólakettinum.
Bókin heitir Leitin að jólakettinum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka