Berglind Guðmunds sýnir hvernig á að elda kalkún

mbl.is/

Ef einhver telst sæmilega hæfur (og gott betur) til að kenna okkur hvernig á að elda kalkún eftir kúnstarinnar reglum þá er það Berglind Guðmundsdóttir á Gulur, rauður, grænn og salt. Berglind er ekki bara einn vinsælasti matarbloggari landsins heldur er hún líka sérdeilis indæl og skemmtileg. 

Safaríkur kalkún með möndlu- og eplafyllingu

Fyrir 10-12 manns

  • 5-6 kg kalkún
  • 200 g smjör
  • 500 ml bjór/pilsner
  • 250 g majónes
  • Rósmarín, ferskt
  • Hvítlauksduft
  • T.d. gulrætur, rauðlaukur, hvítlaukur, appelsínur o.s.frv.

Hitið ofninn í 210°C

Snyrtið kalkúninn, fjarlægið innmatinn og skolið hann. Þerrið og setjið í ofnfast mót. Bræðið smjör í potti og bætið bjór/pilsner saman við. Hellið þessari blöndu yfir kalkúninn. Þekið kalkúninn með majónesi og farið aðeins undir húðina. Kryddið með hvítlauksdufti og smátt söxuðu rósmaríni. Skerið grænmeti og ávexti niður gróflega og fyllið kalkúninn. Setjið kjöthitamæli í þykkasta hluta kalkúnsins, bringu eða læri, en látið hann ekki snerta bein. Setjið kalkúninn í ofninn og lækkið ofnhitann niður í 160°C. Þegar kjarnhitinn er 70-72°C takið kalkúninn úr ofninum og látið standa í 30 mínútur, hulinn álpappír, áður en hann er borinn fram.

Punktar

  • Frosinn kalkún er um 3 sólahringa að þiðna að fullu.
  • Eldunartími kalkúns er um 40 mínútur á hvert kíló.

Epla og möndlufylling

  • 2 msk. smjör
  • 5 stk. rauð epli
  • 3 dl möndlur, saxaðar gróflega
  • 2 laukar, saxaðir
  • 3-4 stk. sellerí, skorið smátt
  • Salt
  • 1 tsk. kanill
  • 5 ristaðar brauðsneiðar, skornar í teninga
  • 2 dl rúsínur
  • 1 egg, þeytt
  • Skvetta af eplaediki

Setjið smjör á pönnu og steikið epli, möndlur, lauk og sellerí í nokkrar mínútur. Saltið. Blandið þeyttu eggi saman við brauðteninga, kanil og rúsínur og blandið saman við eplablönduna ásamt skvettu af eplaediki. Smyrjið ofnfast mót og setjið fyllinguna þar í. Setjið 2 msk. af smjöri saman við. Látið í 180°C heitan ofn í 30-40 mínútur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka