Frábær forréttur er að detta hérna í fangið á ykkur. Einfaldur, bragðgóður og vinsæll á meðal þeirra sem hafa smakkað. Smekklega borinn fram á skeið sem gefur eilítið öðruvísi stemningu við matarborðið.
Stökkir raviolikoddar á tómatsalsa (fyrir 8)
- Ferskt ravioli með spínati
- Ólífuolía
- Kerfill (má sleppa)
- 400 g tómatar
- 1 avocado
- 1 sítróna
- 1 chilí
- 2 stór hvítlauksrif
- Basilika
- Salt og pipar
Aðferð:
- Hakkið tómatana smátt og skerið avocado í litla bita. Kreistið sítrónusafa yfir avocado-ið.
- Fjarlægið kjarnann úr chilíinum og saxið smátt niður.
- Veltið tómötunum saman við avocado, chili og pressaðan hvítlauk. Saxið basiliku og veltið upp úr salsablöndunni með ólífuolíu. Smakkið til með salti og pipar.
- Hitið olíu í potti og steikið ravioli í 1-2 mínútur á hvorri hlið, þar til koddarnir verða stökkir. Leyfið olíunni að leka af á eldhúspappír. Setjið tómatsalsa í skeiðar og einn raviolikodda þar ofan á. Skreytið með smátt söxuðum kerfli (eða basiliku).