Þessi uppskrift er í senn afskapleg holl og svo einstaklega bragðgóð. Silungur stendur auðvitað alltaf fyrir sínu en kominn í þennan hnetuhjúp verður hann eitthvað allt annað og enn þá betra. Eiginlega bara hreinræktaður sparimatur ef út í það er farið.
Smælkið og salatið er síðan sérlega vel valið meðlæti en uppskriftin kemur frá Einn, tveir og elda.
Pönnusteiktur silungur í hnetuhjúp með smælkikartöflum og ávaxtasalati
Fyrir tvo
- 400 g silungur
- 50 g panko-brauðrasp
- 50 g hakkaðar heslihnetur
- 300 g smælkikartöflur
- 50 g salat
- 1 grænt epli
- olía, salt & pipar
Aðferð:
- Setjið smælkikartöflurnar í eldfast mót ásamt „dass“ af olíu, salti og pipar. Hitið ofninn í 200°C og bakið kartöflurnar í 20-30 mínútur.
- Skerið silunginn í tvær steikur. Blandið saman brauðraspinum og heslihnetunum í skál og veltið silungnum upp úr blöndunni.
- Hitið 2-3 msk. af olíu eða smjöri á pönnu og steikið silungssteikurnar í 3-4 mínútur á hvorri hlið, byrjið á að snúa roðhliðinni niður.
- Skerið eplið niður í bita og blandið saman við salatið. Njótið vel!