Það er fátt meira stressandi en mánuðirnir og hvað þá dagarnir fyrir brúðkaup. Allt á að vera fullkomið, eða svo gott sem, enda dagur og upplifun sem kemur aldrei aftur.
Það ætlaði allt um koll að keyra er verðandi brúður deildi skoðun sinni á Facebook-grúppunni Vegan Revolution fyrir stuttu. Þar lýsti hún því yfir að hún vildi með engu móti bjóða „morðingjum“ í brúðkaupið sitt – og eyðileggja hamingjusamasta dag lífsins. Hér þarf vart að taka fram að brúðurin og verðandi eiginmaður hennar eru bæði vegan.
Brúðurin á að hafa spurt fjölskyldu og vini hvort þau væru til í að hætta að borða kjöt, þá ekki bara fyrir stóra daginn heldur til frambúðar og hafi margir þeirra neitað. Nærstaddur ættingi skrifaði á Facebook-grúppuna og sagði að aldrei hefði neinn ráðist svona að brúðhjónunum og beðið þau um að hætta að vera vegan.
Móðir brúðarinnar og tvær frænkur sem gegna áttu hlutverki brúðarmeyja hafa ekki fengið boðskort í brúðkaupið þar sem þær neita að hætta að borða kjöt. Við vonum að brúðkaupsdagurinn verði sá sem hún óskar sér, þó að stóran hluta af fjölskyldu og vinum vanti til að fagna.