Læknirinn hélt partý sem okkur var ekki boðið í

Ragnar Freyr Ingvarsson

Ok. Stund­um eru hald­in partý sem maður hefði ólm­ur viljað kom­ast í. Partý þar sem fé­lags­skap­ur­inn er til fyr­ir­mynd­ar og veit­ing­arn­ar upp á tíu. Að maður tali nú ekki um partý þar sem boðið er upp á tví­réttaðan metnað í hæsta gæðaflokki.

Lækn­ir­inn í eld­hús­inu (aka. Ragn­ar Freyr Ingvars­son) bauð vini sín­um í svo­leiðis partý og hér gef­ur að líta út­kom­una. Fyr­ir þá sem vilja lesa enn meira um bjórpör­un­ina og alla hina vit­leys­una sem fram fór er hægt að smella HÉR.

Læknirinn hélt partý sem okkur var ekki boðið í

Vista Prenta

Mat­ar­boð Freys­anna 

Djúp­steikt sus­hi, hum­ar og maki í for­rétt, Bao-Bao boll­ur með lang­eldaðri grís­asíðu, grilluðu ri­beye, snögg­pækluðu meðlæti og súkkulaðimús í eft­ir­rétt - allt parað við ljúf­fenga bjóra.

Og þetta var sam­vinnu­verk­efni - við hent­um hug­mynd­um á milli okk­ar vik­una á und­an. Ljóst var í upp­hafi að þarna yrði bjórpör­un höfð í há­veg­um. Þar skar­ar Freysi frammúr. Hann vissi vel hvaða bjór ætti að hafa með hverj­um og ein­um rétti. Freyr sagði jafn­framt að sam­an vær­um við góðir, hann með at­hygl­is­brest og ég með of­virkni - sann­kallað ADHD teymi að störf­um.

For­rétt­ur - klass­ískt sus­hi / djúp­steikt sus­hi

  • 500 g sus­hi hrís­grjón - elduð með hefðbundn­um hætti
  • Majó-wasa­be (þrír hlut­ar maj­ónes á móti ein­um hluta wasa­be)
  • Lax
  • Hum­ar
  • Stökkt lax­aroð (roðið af lax­in­um steik í olíu þangað til að það er stökkt eins og kex)
  • Ag­úrka (kjarn­hreinsuð í þunn­um lengj­um)
  • Avaca­dó (í þunn­um sneiðum) gul­ræt­ur (í þunn­um lengj­um)
  • Nori blöð
  • Pæklaður engi­fer

Það er ein­falt að búa til sus­hi. Mörg­um vex það í aug­um en það er í reynd of­ur­ein­falt.

Hrís­grjón­un­um er dreift yfir nori blöðin og svo er fyll­ing­in val­in. Í eina rúll­una fór wasa­be-mæjó, lax, steikt lax­aroð, gul­ræt­ur og svo pæklaður engi­fer.

Í hina wasa­be-mæjó, hum­ar, gul­ræt­ur og avaka­dó.

Svo voru lengj­urn­ar út­bún­ar með því að rúlla þeim upp með því að nota lít­in bambus fleka. Svo fengu rúll­urn­ar að taka sig í 30 mín­út­ur í kæli áður en þær voru sneidd­ar niður.

Útbjó svo fljót­legt tem­púra­deig;

  • Einn bolli af hveiti
  • 1 msk mat­ar­sódi
  • 1 msk kart­öfl­umjöl
  • 1 tsk syk­ur
  • 1 tsk salt
  • ískalt sóda­vatn (breyti­legt magn eft­ir hveiti, en bætt sam­an við þangað til að deigið minn­ir á þykkt lím).

Velti svo nokkr­um laxa- og humar­rúll­um upp úr tem­púra­deig­inu og djúp­steikti þangað til deigið var gyllt að utan.

Þar sem smá­veg­is af hum­ar var af­gangs velti ég hon­um líka upp úr tem­púra­deigi og djúp­steikti með sam­an hætti.

Svo var sus­hinu raðað á disk með wasa­be, soya og pækluðum engi­fer.

Með sus­hi-inu bár­um við fram Borg bjór­inn Esju. Þetta er villiöl - gert úr nátt­úru­legu geri, brettanomyces, og er bjór í belg­ísk­um stíl. Esja er sai­son bjór - sem er súröl - en held­ur mild­ur sem slík­ur. Hann hef­ur fengið að þrosk­ast í þrjú ár á Ch­ar­donnay hvít­vínstunn­um sem gef­ur bjórn­um ögn smjör­kennd­an keim. Passaði vel með sus­hi-inu, bæði því ferska og því djúp­steikta. Al­gert sæl­gæti og kom mér veru­lega á óvart.

Fyr­ir aðal­rétt­inn

Fyr­ir bao-bao boll­urn­ar

  • 2 og ½ bolli hvítt hveiti (364g)
  • 1 og ½ tsk þurr­ger
  • ¾ boll­ar hitað vatn, ca 25 gráður eða svo
  • 3 msk matarol­ía
  • 2 tsk lyfti­duft
  • 2 msk syk­ur

Fyr­ir fyll­ing­una

  • 2 bit­ar af grís­asíðu á beini
  • 1 rauðlauk­ur
  • 2 gul­ræt­ur
  • 1 chilli pip­ar
  • 2 kanilstang­ir
  • 2 stjörnu­anís
  • 10 rauð kampot pip­ar­korn
  • 1 flaska Garún-bjór
  • 3 msk hlyns­íróp
  • 4 msk soyasósa
  • 3 ri­beye nauta­steik­ur
  • 3 msk jóm­frúarol­ía
  • 3 msk soya sósa
  • 1 lime
  • 1 chilli pip­ar
  • 5 cm engi­fer
  • 2 hvít­lauks­geir­ar
  • 1 msk fersk stein­selja

Meðlæti og sósa kem­ur neðar!

Skar gul­ræt­urn­ar, lauk­inn og chilli pip­ar­inn gróf­lega og setti í ofnskúffu ásamt kanil, pip­ar og stjörnu­anís.

Þetta voru ansi stæðileg­ir grís­asíðubit­ar - á beini. Kost­ur­inn við að hafa síðuna á beini er að soðið sem verður til og legg­ur grunn­inn í sós­una verður einkar ljúf­feng.

Þá var að hella heillri flösku af Garúnu stout sam­an við, ásamt soyasósu og hlyns­írópi. Lokið var svo sett á fatið og svo sett í 160 gráðu heit­an ofn í þrjár klukku­stund­ir.

Næsta skref var að huga að nauta­kjöt­inu. Og það var líka ein­falt. Skar rauðan chili, engi­fer og hvít­lauk niður.

Lagði steik­urn­ar í skál, nuddaði með jóm­frúarol­íu, soya og lime safa. Blandaði hvít­lauk, engi­fer og chilli sam­an við ásamt smá­ræði af niður­skor­inni stein­selju. Þetta fékk svo að mar­in­er­ast í nokkr­ar klukku­stund­ir á meðan við und­ir­bjugg­um meðlæti og annað sem er að finna í þess­ari færslu.

Þessi texti er feng­inn frá heimasíðunni Bjór og Mat­ur sem Freysi held­ur úti. Hann sá líka al­veg um bao-bao boll­urn­ar.

  • 5 bolli hvítt hveiti
  • 3 tsk þurr­ger
  • 1,5 boll­ar hitað vatn, ca 25 gráður eða sv
  • 6 msk matarol­ía
  • 4 tsk lyfti­duft
  • 4 msk syk­ur

1) Hitið vatn ör­lítið, ca 20-25 gráður. Bætið ger­inu út í og látið blotna aðeins í svona mín­útu. Því næst bætið þið tveim­ur mat­skeiðum af matarol­íu og hrærið aðeins í. Látið standa.

2) Setjið hveiti, lyfti­duft og syk­ur í hræri­vél með hnoðara haus. Blandið aðeins sam­an og stillið svo á hæg­an gang. Hellið gerv­atn­inu hægt sam­an við. Aukið aðeins hraðan á hræri­vél­inni. Látið ganga þar til mynd­ast hef­ur klump­ur eða kúla. Takið þá deigið út og hnoðið af­gang­inn sam­an við. Deigið á að vera aðeins klístrað, en ekki þannig að þurfi hveiti á borðið, ef hins veg­ar það er of klístrað bætið smá hveiti við. Ef of þurrt, þá vætið hend­ur aðeins og hnoðið rak­an­um inn deigið.

3) Pennslið skál með olíu og setjið deigið í hana og plast­filmu yfir. Látið standa í a.m.k klukku­stund eða þar til orðið tvö­falt stærra. Nú er góður tími til að und­ir­búa fyll­ing­una.

4) Hnoðið svo deigið létt sam­an og myndið lengju og skiptið svo upp í átta jafn stóra búta.

5) Takið hvern bút og formið disk í lóf­an­um, setjið svo á borð og fletjið út með rúllu í sporösk­uljaga köku, stærðin er dá­lítið smekks­atriði, gott að hafa um það bil þriggja til fjögura mm þykkt. Pennslið svo helm­ing­inn með olíu og leggið sam­an í hálf­mána.

6) Setjið hálf­mán­ana á bök­un­ar­papp­írs­bút, einn á hvern bút og látið svo standa á volg­um stað með þurru viska­stykki yfir í ca klukku­stund. Fylg­ist með þess­um elsk­um bólgna út og þrosk­ast … svo fal­legt.

7) Best er að gufu­sjóða brauðin í bambus­grind, en ef maður á það ekki þá er vel hægt að nota græn­met­issuðugrind í potti með vatni. Það virkaði hjá mér alla vega. Setjið brauðin á smjörpapp­írn­um í gufug­ræj­una, t.d. tvö í einu, fer eft­ir stærð, en það þarf að vera pláss á milli þeirra. Gufu­sjóðið svo í ca sjö mín­út­ur eða þar til brauðin eru orðin bólg­in og þurr.

Þegar grís­asíðan var til­búið skar ég pur­una af og poppaði inn í blúss­heit­um ofni, 250 gráður í nokkr­ar mín­út­ur - maður má helst ekki taka aug­un af því.

Síaði svo soðið og setti í pott, bætti hálfri flösku af Garúnu við og sauð niður um helm­ing þangað til sós­an varð hnausþykk. Bætti svo skvettu af Garúnu sam­an við ásamt 100 g af smjöri og þeytti vand­lega sam­an við. Til að sæta sós­una sett­um við fjór­ar kúfaðar mat­skeiðar af hun­angi.

Og ég er að segja ykk­ur það sós­an sló al­veg í gegn.

Við gerðum þrjár teg­und­ir af pækluðu meðlæti. Skar niður smá­ræði af rauðkáli, raspaði fimm cm af engi­fer sam­an við og huldi með hvít­vín­se­diki. Bragðbætti með einni mat­skeið af sykri og salti. Smá pip­ar.

Skar svo niður eitt grænt epli og eina peru og huldi með hvít­vín­se­diki. Bætti svo hálf­um rauðum chilli sam­an við og bragðbætti með einni mat­skeið af sykri og salti.

Svo var það rauðlauk­ur­inn. Einn rauðlauk­ur skor­inn í þunn­ar sneiðar, huldi með hvít­vín­se­diki, bragðbætti með einni mat­skeið af sykri og salti. Smá pip­ar.

Allt þetta lét ég standa út á borði í nokkr­ar klukku­stund­ir á meðan við und­ir­bjugg­um allt annað sem er að finna í þess­ari færslu.

Auk þess að vera með pæklað meðlæti vor­um við einnig með ferska næf­urþunnt skorna ag­úrku, papríku og fersk­an kórí­and­er (fyr­ir þá sem eru ekki með of­næmi).

Muld­um niður pur­una til að hafa með.

Nauta­kjötið var svo grillað á pönnu í þrjár mín­út­ur á hvorri hlið. Ég hefði grillað það úti en mér tókst ekki að moka út grillið í tæka tíð.

Skar svo grís­inn af bein­inu og lagði í eld­fast mót, penslaði með sósu og grillaði í eina til tvær mín­út­ur und­ir blúss­andi grilli. Sneiddi í þunn­ar sneiðar.

Nauta­kjötið var einnig sneitt niður í þunn­ar sneiðar. Sáldraði svo ferskri stein­selju yfir kjötið áður en það var borið fram.

Svo var bara veisla.

Með bao bao boll­un­um nut­um við Úlfs sem er India Pale öl frá Borg. Þetta er ákaf­lega vel heppnaður bjór, hoppaður og bragðgóður, sem stóð sig afar vel með aðal­rétt­in­um.

Svo var bara að fara að mat­ast. All­ir gátu raðað sam­an eins og þeir vildu. Þessi var með grísa­kjöti, pækluðum epl­um og per­um, rauðkáli, fersk­um kórí­and­er og garún­arsósu.

Þessi bao bao bolla var með nauta­kjöti, gúrku, pækluðum rauðlauk og siracha mæjó. Sæl­gæti.

Fyr­ir þá sem ekki vildu fá Úlf með bao bao boll­un­um þá sló Barra­bas dubbel öl, sem páska­bjór­inn þeirra frá Borg í fyrra, al­ger­lega í gegn. Ljúf­fengt og dökkt öl sem sómdi sér ekk­ert síður vel en Úlfur.

Og svo var eft­ir­rétt­ur;

Þetta er allt frá R. Freyr Rún­ar­syni á Bjór og Mat­ur.

Besta súkkulaðimús í heimi með fersku hind­berjamauki. Það besta við þessa mús er að það er fljót­legt að gera hana og auðvelt.

  • 250 g gæðasúkkulaði (125 g suðusúkkulaði og 125 g 70% súkkulaði)
  • 150 g syk­ur­púðar
  • 50 g smjör
  • 60 ml heitt vatn (soðið vatn)
  • 285 ml rjómi, þeytt­ur.
  • 1 tsk vanillu­drop­ar

Syk­ur­púðar, smjör og saxað súkkulaði er sett í stór­an pott og svo er 60ml heitu vatni bætt við. Látið svo malla á mjög lág­um hita, rétt til að bræða súkkulaðið og púðana. Hrærið reglu­lega þar til allt er bráðnað og látið svo kólna. Þeytið rjómann með vanillu­drop­un­um og blandið var­lega sam­an við rest.

Hind­berjamaukið:

  • 300 g hind­ber (fros­in er al­gjör­lega í lagi)
  • 1/​4 bolli syk­ur
  • 1 mtsk súr­bjór eða bara sítr­ónusafi
  • 1/​4 tsk nýmul­inn pip­ar (má sleppa samt)

Setjið þetta allt í mat­vinnslu­vél og maukið þar til ber­in eru orðin að mauki. Svo er gott að sigta maukið til að losna við stein­ana og svo sjóða í ööör­litla stund á væg­um hita en þetta ger­ir maukið silkimjúkt og aðeins hlaup­kennt.

Eins og les­end­ur sjá var þetta veisla frá upp­hafi til enda! Bjór var paraður við mat og mat­ur við bjór!

Ragn­ar Freyr Ingvars­son
Ragn­ar Freyr Ingvars­son
Ragn­ar Freyr Ingvars­son
mbl.is
Fleira áhugavert

Matur »

Fleira áhugavert