Fátt verra en að klára gasið

Ragnar Freyr Ingvarsson.
Ragnar Freyr Ingvarsson. Eggert Jóhannesson

Ragn­ar Frey Ingvars­son eða Lækn­inn í eld­hús­inu þarf ekki að kynna fyr­ir nein­um en hann hef­ur yfir að ráða for­láta eld­húsi sem hann hannaði sjálf­ur. Hann seg­ist hafa legið yfir skiss­um í marga mánuði áður en hann keypti inn­rétt­ing­arn­ar því það borg­ar sig að vanda til verka þegar mik­il­væg­asta rými heim­il­is­ins er hannað. Upp­leggið hjá Ragn­ari var að sam­eina fjöl­skyld­una á ein­um stað og hann er ekki frá því að það hafi tek­ist.

Hvað er best við eld­húsið þitt?

Ætli það sé ekki hönn­un­in á því sem ég kann best við. Eld­húsið hannaði ég sjálf­ur, auðvitað með hjálp frá vin­um og vanda­mönn­um sem gáfu góð ráð. Kjarni eld­húss­ins er eyj­an sem er fjögra metra löng og utan um hana geta all­ir heim­il­is­menn og gest­ir sam­ein­ast. Kokk­ur­inn er aldrei einn inn í eld­hús­inu því við enda eyj­unn­ar geta fjöl­skyldu­fólk og gest­ir tyllt sér og spjallað við mann á meðan verið er að und­ir­búa mat­inn. Þá er eyj­an einnig hönnuð með það í huga að marg­ir geti hjálp­ast að við mat­ar­gerðina – á meðan einn stend­ur yfir hlóðunum þá geta aðrir verið sitt hvor­um meg­in við hana og skorið niður í sal­at eða und­ir­búið meðlætið. Þá verður að segj­ast að ég er vel tækj­um bú­inn – með eig­in­lega öll tól og áhöld sem hug­ur áhuga­kokks­ins girn­ist!

Hvað ein­kenn­ir vel hannað eld­hús?

Það er auðvitað breyti­legt. Það verður auðvitað að vera not­hæft. Það er gam­an ef það er fal­legt og bjóðandi. Það hjálp­ar ef það vek­ur inn­blást­ur hjá kokkn­um.

Hvað er mik­il­væg­ast?

Að eld­húsið sé praktískt. Að það hjálpi kokkn­um að elda – létti verkið.

Upp­á­halds­heim­ilis­tækið?

Það er af mörgu að taka. Ég á góða gaselda­vél sem hef­ur þjónað mér und­an­far­in tíu ár. Þá er ég einnig með tvo nú­tíma­lega ofna frá Bosch. Ann­ar er gufu­ofn með fullt af skemmti­leg­um fíd­us­um og hinn er bæði venju­leg­ur ofn og ör­bylgju­ofn. Góð tæki létta án efa mat­reiðsluna til muna.

Mik­il­væg­asta eld­húsáhaldið?

Valið stend­ur í mín­um huga á milli hnífs­ins og svo góðrar pönnu. Með góða pönnu og beitt­an hníf er eig­in­lega hægt að elda hvað sem er. Að þessu sinni ætla ég að nefna þessa pönnu – sem er úr smíðajárni og er frá Lod­ge. Hún hent­ar jafn­vel til steik­ing­ar og til sjálfs­varn­ar, en nokkuð þungt í henni. Kost­ur­inn er að hún held­ur og dreif­ir hit­an­um vel og jafnt. Þá held ég stund­um að smíðajárn­spönn­ur henti sér­stak­lega vel til að brúna kjöt – það verður ein­hvern veg­inn svo góð og jöfn kar­melliser­ing á kjöt­inu þegar það er steikt á svona góðri pönnu.

Hverju má alls ekki gleyma?

Að vera viss um að það sé gas á kútn­um eða vera viss um að eiga varakút. Það er ekk­ert meira stress­andi en að klára gasið – með fullt hús af svöng­um gest­um!

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert