Lúxuslax með sítrónusmjöri og salati

mbl.is/Einn, tveir og elda.

Hér erum við með sannkallaðan sælkeralax sem ætti að gleðja hvern sem er á degi sem þessum. Lax klikkar aldrei eins og við vitum og einfaldleikinn er oftar en ekki laaaangbestur. Hér er sítrónusmjörið í aðalhlutverki og eins og allir sannir sælkerar vita er fátt betra á fisk.

Það eru meistararnir hjá Einn, tveir og elda sem eiga heiðurinn af uppskriftinni en ef þið nennið ekki að hafa fyrir því sjálf að elda þá auðvitað skellið þið ykkur bara á vefsíðuna þeirra og pantið þessa snilld.

Laxafiðrildi með hrísgrjónum, sítrónusmjöri og salati

fyrir tvo

  • 400 g lax
  • 100 g hrísgrjón
  • 1 sítróna
  • 50 g smjör
  • 50 g salat
  • 30 g fetaostur
  • salt og pipar

Aðferð:

1. Hitið vatn í potti að suðu og sjóðið hrísgrjónin samkvæmt leiðbeiningum á umbúðum. Hitið ofninn í 180°c og stillið á undir- og yfirhita.

2. Skerið laxinn í tvær steikur og skerið hvora steik um sig í miðjunni alveg að roðinu, gætið þess að skera þær ekki alveg í sundur. Brjótið steikurnar þá saman þannig að roðið snúi inn.

3. Hitið smjör á pönnu og steikið laxafiðrildin í 2-3 mínútur á hvorri hlið, kryddið með salti og pipar.

4. Færið laxafiðrildin í eldfast mót og hellið smjörinu yfir. Skerið sítrónuna í tvennt og kreistið hálfa sítrónu vel yfir laxinn, bakið hann í 10-15 mínútur eða þar til hann er fulleldaður.

5. Blandið fetaostinum saman við salatið og skerið hinn helminginn af sítrónunni í báta. Berið laxinn fram ásamt hrísgrjónum, salati og sítrónubátum. Gott er að kreista sítrónusafa yfir laxinn og salatið. Njótið vel!

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert