Plokkfiskurinn sem sagður er sá besti á Íslandi

Plokkfiskur er herramannsmatur og alla jafna eldaður eins. Hér náðum við þó í uppskriftina sem sögð er sú besta hér á landi enda kemur hún úr uppskriftabók hins eina sanna Úlfars Eysteinssonar.
Úlfar var, sem kunnugt er, maðurinn á bak við veitingastaðinn Þrír Frakkar hjá Úlfari, sem nýtur alltaf mikilla vinsælda og fagnaði 30 ára afmæli 1. mars. Staðurinn hefur lítið breyst en hann er nú rekinn af syni Úlfars, Stefáni Úlfarssyni. 

Plokkfiskur

Fyrir 4

  • 800 g þorskflök, roð- og beinhreinsuð
  • 1 l mjólk
  • 1 stk. laukur, saxaður
  • 50 g smjör
  • 50 g hveiti
  • (smjör og hveiti notað til þess að búa til smjörbollu)
  • 5 stk. soðnar kartöflur, skornar í bita
  • 2 msk. smjör
  • salt
  • pipar
  • karrí

Aðferð:

  1. Sjóðið þorskinn í saltvatni og færið hann svo upp úr soðinu.
  2. Bræðið 50 g smjör í potti og setjið hveitið út í og hrærið stanslaust í smjörbollu.
  3. Hitið mjólkina að suðu ásamt lauk og kryddi en þá er smjörbollunni bætt út í og sósan höfð þykk. Hluti af sósunni er nú tekinn frá til að bæta í síðar.
  4. Setjið fiskinn út í sósuna og blandið. Ef plokkarinn er of þykkur og þurr má bæta sósu við.
  5. Setjið kartöflur og smjör út í og kryddið meira eftir smekk. Berið fram með seyddu rúgbrauði og smjöri og gott er að hafa bernaise-sósu með. (Hægt er að setja hann aðeins inn í ofn og strá osti yfir þannig að hann bráðni yfir.)
Veitingastaðurinn Þrír Frakkar hjá Úlfari.
Veitingastaðurinn Þrír Frakkar hjá Úlfari. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka